145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:14]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Víst var ég að hæla hv. þingmanni áðan. Ég var ánægður með efnistökin, þ.e. þegar menn vilja ræða stóru myndina sem er að dragast upp af því sem hér er að gerast. Ég ítreka spurninguna. Árið 2009 réttum við ríkissjóð af um 57 milljarða, 2010 um 50 milljarða, 2011 um 38 milljarða og við skiluðum honum hallalausum árið 2013 og þið eruð enn að hamast í sama farinu. Þið eruð enn að hamast í sama farinu, að vonast til þess að geta skilað ríkissjóði fjórða árið í röð á núlli og þurfið að treysta á arðgreiðslu frá Landsbankanum til þess. Góðir og glaðir íhaldsmenn, sjálfstæðismenn hefðu hér fyrir örfáum árum blóðroðnað af skömm yfir því að vera að leggja fram svona fjárlög. Þeir hefðu verið að skila hér fjárlagafrumvarpi með 50 milljarða afgangi hið minnsta. Þess í stað kemur þessi ágæti flokkur Sjálfstæðisflokkur sem hefur alla vega þóst hafa vit á peningum og skilar hér fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) á núlli. Fjórða árið í röð. Hvenær lýkur þessum ósköpum?

Ég ítreka spurninguna: Finnst (Forseti hringir.) hv. þingmanni það ásættanlegur árangur í ríkisfjármálum undir stjórn hæstv. fjármálaráðherra Bjarna (Forseti hringir.) Benediktssonar að staðan sé bara svona?