145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég starfaði lengi í bæjarstjórn í litlu þorpi norður í landi með framsóknarmönnum og þótti ægilega vænt um þá. Það var gott að vinna með þeim og þeir voru traustsins verðir. Alltaf hægt að treysta á þá.

Ég fann til í pólitíkinni fyrir þeirra hönd að hlusta á hv. þingmann áðan að reyna að verja afstöðu sína gagnvart því að skilja öryrkja eftir með hækkanir aftur í tímann með því að ryðja út úr sér prósentum og milljörðum á milljarða ofan og prósentum og nánast segja það berum orðum að þeir væru nú bara búnir að fá andskotans nóg. Þeir þyrftu ekki meira þessir öryrkjar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Er þetta ástæðan fyrir því að hann neitaði öryrkjum og öldruðum í gær í atkvæðagreiðslu um afturvirkar hækkanir á bótum þeirra? Er þetta ástæðan fyrir því að það hafi verið farið í sjálfsagðar aðgerðir til að (Forseti hringir.) rétta hlut aldraðra og öryrkja á undanförnum árum, mörgum undanförnum árum, eins og alltaf stóð til að gera og eru til margar þingræður og þingskjöl í þinginu því til staðfestingar?