146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hef ég heyrt bæði í ræðu og riti og séð á myndum að hæstv. fjármálaráðherra hefur nef fyrir stærðfræði. Þar sem hann er skrifaður fyrir þessu plaggi kemur það mér spánskt fyrir sjónir að á bls. 7 undir liðnum Skulda- og eignamarkmið stendur orðrétt:

„Skuldastaða sveitarfélaga hefur batnað að undanförnu, sem sést meðal annars á því að nú eru einungis örfá sveitarfélög með skuldir yfir 150% af reglulegum tekjum sínum samanborið við 13 í árslok 2014.“

Það sem mér finnst vera svolítið skrýtið í þessu er að „örfá“ er ekki einu sinni tala. Þá erum við með óræða tölu sem skilgreind er sem „örfá“ og að staðan sé betri en hún var einhvern tímann. Ég get náttúrlega sett skilgreiningu á þetta, talan er 1–12, væntanlega minni en 13. Nú veit ég að hv. þm. Smári McCarthy hefur einmitt áhuga á stærðfræði, sem ég hef í sannleika sagt ekki. Hefur hann eitthvað heyrt í stærðfræðinni um töluna „örfá“?