146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég leit svo á eftir umræðuna í gær og bjóst eiginlega við því að hæstv. fjármálaráðherra og hv. formaður fjárlaganefndar sætu nú og endurskrifuðu tillöguna. Slík voru rökin fyrir breytingum hér sem fram komu í gær. Ekki heyrði ég þeim mótmælt harðlega eða festulega af þeim félögum. Ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar er sestur í hliðarsalinn þannig að ég segi eins og karlinn sagði í réttunum þegar hann kom við á bæ og fékk disk af kleinum sem hann hesthúsaði á skammri stundu: Þakka fyrir það sem komið er, vonast til að fá meira.

Það væri vissulega gaman að fá hæstv. fjármálaráðherra. Eins og ég kom inn á í ræðu minni í gær er eiginlega ótrúlega sérstakt að það taki ekki fleiri hæstv. ráðherrar þátt í því að útskýra fyrir þingheimi og þjóð hvernig þeir sjá þetta samfélag fyrir sér (Forseti hringir.) næstu fimm árin því að það er það sem við erum að ræða hérna.