146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir með félögum mínum. Það má vel vera að þingmanni þyki við farin að endurtaka okkur. Það hefur gerst í gegnum tíðina og á örugglega eftir að gerast aftur og það hefur líka stundum bætt umræðuna. Það hefur aukið upplýsingagjöf og fólk hefur orðið einhverju nær. Ég held að það t.d. hafi gerst hér í gærkvöldi, að fólk hafi orðið einhverju nær um það sem hér er verið að fjalla um. Ég hef í alvörunni miklar áhyggjur af því að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og jafnvel einhverjir í minni hlutanum líka viti ekki nægjanlega vel um hvað málið snýst, hvað raunverulega er verið að gera með þessari stefnu, að það sé verið að loka okkur inni í boxi sem er ekki fyrirséð hvað þýðir fyrir málaflokka ríkisins, þ.e. allar þær stofnanir sem undir eru. Það er ástæða til að ræða það hér þannig að fólk átti sig á því.

Svo er líka hitt, það er ekki nóg að fylgjast með. Ef við viljum í alvörunni eiga eitthvert gagnvirkt samtal þurfa stjórnarþingmenn líka að taka þátt með því að koma í andsvör og rökstyðja t.d. hvers vegna þeir eru ósammála okkur.