148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að ganga hérna hring á nokkra þingflokksformenn sem kannast ekki við það að samið hafi verið um að hér yrði þingfundur lengdur, þá væntanlega eftir þörfum fram yfir klukkan átta. Ég var á þingflokksformannafundi á sínum tíma. Ég man ekki til þess. Aðrir sem voru á þeim fundi og ég hef talað við kannast ekki við þetta.

Spurt var áðan af hv. þingmanni hvenær samið hafi verið um þetta. Ég ætlast til þess, með fullri virðingu, að hæstv. forseti svari þeirri spurningu. Ég kem hingað upp bara til að spyrja þeirrar spurningar og ef hæstv. forseti hefði einfaldlega svarað fyrirspurn hv. þingmanns áðan hefði ég kannski ekki þurft þess, ef komið hefði viðhlítandi skýring.

Mér finnst þetta líka eiga að minna okkur á að við eigum ekki að taka ákvarðanir á þingflokksformannafundum eftir því hvort einhver fái hugmynd og ef enginn berst sérstaklega á móti því sé því sjálfkrafa tekið sem samþykkt. Það er þreytandi að þurfa að vera að tuða yfir þessu. Hæstv. forseti er sjálfsagt sammála því. En ég spyr aftur, eins og hv. þingmaður áðan: Hvenær var það ákveðið og samþykkt meðal þingflokksformanna að hér stæði fundur lengur en þingsköp gera ráð fyrir?