148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

leiguíbúðir eldri borgara í Boðaþingi.

[15:41]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessa fyrirspurn. Ég var búinn að sjá þessa frétt í blöðunum og að hv. þingmaður hefði átt þarna fund eins og hún lýsti. Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir, gagnvart þeim hópi sem hér um ræðir, þá er til skoðunar fjárhagsleg staða eldri borgara sem við verstar tekjur búa og er verið að setja í gang vinnu við að undirbúa aðgerðir sem miða sérstaklega að þeim hópi. En þetta mál snýr kannski meira að húsnæðismálum sem slíkum en almannatryggingum almennt eða einhverju slíku.

Það sem mér hefur fundist og hef verið að sjá gerast — þetta einstaka mál hefur ekki komið inn á borð ráðherra, bara svo það sé sagt — er að svo virðist vera sem leigumarkaðurinn á Íslandi sé að verða þannig að allt sem heitir félagsleg nálgun í þeim efnum sé að hverfa. Ég held að ástæða sé til þess að setjast yfir þau mál og sjá hvað hægt er að gera í þeim efnum.

Það berast fregnir víða af landinu um það að leigufélög, einkarekin leigufélög í eigu stórra lífeyrissjóða m.a., gangi ansi hart fram gagnvart fólki sem er á leigumarkaði. Þetta er verkefni sem þarf að skoða og þarf að setja í gang einhverja vinnu. Það er vinna í undirbúningi í ráðuneytinu, ekki kannski gagnvart þessu einstaka máli, heldur leigumarkaðnum í heild sinni, um skýrari leikreglur og annað sem lýtur að hlutum í þeim efnum. Sá sem hér stendur hyggst setja í gang vinnu við að skoða þá þætti. Þetta einstaka mál hefur ekki komið inn á borð ráðuneytisins eða til ráðherra, en eins og því er lýst af hv. þingmanni og hefur verið gert í fjölmiðlum þá finnst mér það í rauninni alveg sláandi.