148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

vísbendingar um kólnun í ferðaþjónustu.

[16:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er auðvitað ljóst að sá mikli vöxtur sem hefur verið í ferðaþjónustunni á undanförnum árum er fordæmalítill og það veldur alltaf áhyggjum þegar greinar vaxa svona hratt. Við höfum séð það svo sem áður að það getur valdið miklum vandræðum þegar það slær síðan í bakseglin, þótt ekki sé nema lítillega, t.d. þegar horft er til aukinnar skuldsetningar greinarinnar samhliða auknum fjárfestingum, áhættu fjármálakerfisins sem er orðin töluverð gagnvart greininni sjálfri og ekki síður hvaða kerfislæga áhætta getur mögulega legið innan greinarinnar. Við erum með tvö flugfélög sem bera uppi hitann og þungann af farþegaflutningum til og frá landinu. Hvaða áhrif hefði það ef annað þessara félaga myndi lenda í verulegum vandræðum eða jafnvel verða gjaldþrota?

Við höfum áður farið flatt á því að gæta okkar ekki eða huga ekki að mögulegum vandamálum fyrir fram eins og við lentum í fyrir réttum áratug. (Forseti hringir.) Við sjáum enn og aftur að vöxturinn er borinn uppi af einni atvinnugrein og í því felst töluverð áhætta fyrir íslenskt efnahagslíf. Þess vegna held ég að sé mjög brýnt (Forseti hringir.) fyrir hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar að leggjast í slíka greiningarvinnu (Forseti hringir.) til að sjá hvaða áhrif þetta kynni að hafa.