149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Allt þetta er stytt niður í titilinn rafrænar þinglýsingar sem frumvarpið fjallar um. Þetta er stjórnarfrumvarp frá dómsmálaráðherra.

Meginefni frumvarpsins sjálfs er að lagður er grundvöllur að rafrænum og þar með sjálfvirkum þinglýsingum. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði hin rafræna þinglýsing bundin við veðskjöl, t.d. skuldabréf og skjöl sem þeim tengjast, skilmálabreytingar, veðbandalausnir, veðflutninga og veðleyfi. Hér er þó ekki um tæmandi upptalningu á þessu að ræða.

Með rafrænum þinglýsingum verður hætt að þinglýsa skjali í heild sinni. Þess í stað verður réttindum og skyldum samkvæmt skjalinu þinglýst en skjalið sjálft ekki sent til þinglýsingarstjóra. Í raun er þá þinglýst þeim atriðum sem nú eru skráð í tölvukerfi þinglýsinga af þinglýsingarstjóra en þinglýsingarbeiðandi færir þau sjálfur inn í þinglýsingarkerfið sem þinglýsir sjálfvirkt ef færslan uppfyllir skilyrði þinglýsingar. Ef ekki er beiðnin annaðhvort endursend eða hún fer til meðferðar hjá þinglýsingarstjóra. Afrit af hinu þinglýsta skjali verður ekki lengur geymt hjá þinglýsingarstjóra. Frumrit skjalsins verður varðveitt hjá kröfuhafa ef um skuldaskjal er að ræða. Um afrit af lánssamningum sem falla undir lög um neytendalán gilda ákvæði þeirra laga.

Þetta er meginefni frumvarpsins. Í reglugerð verður kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í rafrænni þinglýsingarbeiðni og skal beiðnin send til þinglýsingarstjóra rafrænt með vefþjónustu. Lagt er til með frumvarpinu að heimilað verði að þinglýsa réttindum með rafrænni færslu samhliða venjubundinni færslu skjals í þinglýsingabók. Þannig er stefnt að aukinni sjálfvirkni.

Nefndin fjallaði um ýmis atriði sem viðkoma málinu, þar á meðal mikilvægi undirbúningsvinnu en jafnframt mikilvægi þess að stíga skrefið í átt að staðvæðingu þjónustu hins opinbera, skjalavörslu, hugtakanotkun og forgangsáhrifum þinglýsingar. Við meðferð málsins var lögð sérstök áhersla á að með frumvarpinu er ekki verið að leggja af fyrri framkvæmd heldur að jafnframt verði heimilt að þinglýsa meginatriðum skjals með rafrænni færslu.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta út af þessu máli og umsagnir bárust frá Félagi fasteignasala, Íbúðalánasjóði, Neytendastofu, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja, Sýslumannafélagi Íslands, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sýslumanninum á Vesturlandi, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Nefndin bendir á að með frumvarpinu er ekki verið að leggja af fyrri framkvæmd þinglýsinga en þess í stað er lagt til að einnig verði heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu. Í ljósi þess að ákveðna undirbúningsvinnu þarf er því óhjákvæmilegt að fyrst um sinn verði framkvæmdin tvöföld en að því hefur verið stefnt að allt ferlið verði orðið rafrænt við innleiðingu reglugerðar ESB nr. 910/2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum eða hina svokölluðu eIDAS-reglugerð. Frumvarp þessa efnis er á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stefnt að framlagningu þess í febrúar á næsta ári. Ólíklegt er því að þinglýsingarferlið verði að fullu orðið rafrænt þegar þau lög taka gildi.

Hagræðing af rafrænni þinglýsingu verður þó ótvíræð þar sem m.a. verður hægt að stytta biðtímann úr allt að tveimur vikum niður í sekúndur. Nefndin bendir á að gert er ráð fyrir að fyrst um sinn verði hin rafræna þinglýsing bundin við veðskjöl. Í ljósi þess telur nefndin þess vegna nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, svo enginn vafi sé um heimild gerðarbeiðanda til þess að krefjast nauðungarsölu á grundvelli þinglýsingar með rafrænni færslu um veðrétt í eign, sé öðrum lagaskilyrðum fullnægt. Þannig verði tryggt að kröfuhafar nái að fullnusta kröfur sínar eftir að meginatriðum veðskjalsins hefur verið þinglýst með rafrænni færslu. Nefndin tekur fram að sú breytingartillaga hafi ekki áhrif á málsmeðferðina hjá sýslumanni þar sem gerðarbeiðandi muni áfram þurfa að afhenda sýslumanni frumrit veðskuldabréfs, sem rafræna færslan byggist á, samanber 3. mgr. 11. gr. laga um nauðungarsölu.

Við meðferð málsins var nefndinni bent á ýmis álitaefni sem þyrfti að huga að áður en heimildin til að þinglýsa með rafrænni færslu yrði nýtt. Þá var nefndinni einnig bent á að tilefni væri til þess að fara í heildarendurskoðun á þinglýsingalögum. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytisins að fara yfir þau álitaefni sem fram hafa komið í umsögnum um málið og taka tillit til þeirra í undirbúningsvinnunni sem er fram undan og að sú yfirferð verði í samráði við hlutaðeigandi aðila. Í þeirri yfirferð taki ráðuneytið jafnframt til skoðunar hvort endurskoða þurfi þinglýsingalögin, sérstaklega í ljósi þess að stefnan er sú að öll þinglýsing verði rafræn.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum:

1. Við 2. gr.

a. Í stað orðanna „með fullgildri rafrænni undirskrift“ í 1. efnismgr. b-liðar komi: með fullgildum rafrænum hætti.

b. Á eftir orðinu „innsigli“ í 2. efnismgr. b-liðar komi: greiðslu.

2. Í stað orðsins „rafrænnar“ í 10. gr. komi: með rafrænni.

3. Við a-lið 12. gr. bætist: enda hafi skráning kröfuhafa verið leiðrétt, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

4. Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum, með einni grein, 19. gr., svohljóðandi:

Á eftir orðunum „þinglýstum samningi“ í 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: eða rafrænni færslu.

5. Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2019“ í 19. gr. komi: 1. apríl 2019.

Undir nefndarálitið rita Páll Magnússon, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Willum Þór Þórsson. Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.