150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Áður en ég kem að því sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í vil ég aðeins nefna kvótaflóttamenn. Við Íslendingar höfum tekið á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum sem eru flóttamenn sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur óskað eftir að þjóðir heims taki á móti vegna stríðsástands í heimalandi þeirra. Við Íslendingar höfum gert þetta vel og ég styð það að sjálfsögðu að við tökum á móti kvótaflóttamönnum.

Ef við skoðum aðeins þjónustuna sem er í boði fyrir kvótaflóttamenn þá stendur þeim m.a. til boða fjárhags- og húsnæðisaðstoð, heilbrigðisþjónusta, aðgangur að skólakerfinu, túlkaþjónusta og aðstoð við atvinnuleit. Þeir eru auk þess skyldugir að sækja námskeið í íslensku, taka virkan þátt í atvinnuleit og þiggja viðtöl hjá sálfræðingi til að fara yfir reynsluna af búsetu í upprunalandinu og af aðlöguninni í móttökulandinu. Síðan geta kvótaflóttamenn fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa verið búsettir hér í fimm ár.

Verandi í fjárlaganefnd þá fylgja fjárveitingar þessum hópi hverju sinni. Ef mig minnir rétt held ég að ríkisstjórnin hafi ákveðið að auka fjöldann sem verður tekið á móti á þessu ári, það verði 85 einstaklingar. Nú segir í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4, um mat á áhrifum: „Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins …“.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er það svo að þeir sem koma hingað til landsins og fá dvalarleyfi fái þá nákvæmlega sömu þjónustu og kvótaflóttamenn?