150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka umræðu við hv. formanni Miðflokksins og hv. þingmann um ímyndarstjórnmálin en við skulum velja okkur betri og lengri tíma til þeirrar umræðu. Ég lít ekki á flóttamenn eða innflytjendur sem vinnuafl heldur einfaldlega fólk sem er komið hér til þess að búa í leit að betri lífskjörum en það vill bara svo vel til að við njótum góðs af. Það er bara þvert á þessa umræðu sem svo oft heyrist að innflytjendur sé einhvers konar byrði á samfélaginu. Innflytjendur eru alls ekki byrði á samfélaginu. Þeir taka mjög virkan þátt í að byggja þetta samfélag upp fyrir sjálfa sig og okkur hin líka. Það er ekkert að óttast í þeim efnum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að auðvitað eigum við líka að gera meira í nærumhverfinu en við verðum að átta okkur á því að flóttamannavandi heimsins er mikill, hann er kominn til að vera og hann mun sennilega aðeins aukast og ekki bara vegna stríðsátaka heldur sjáum við mjög alvarlegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar sem munu leiða til aukins flóttamannavanda í heiminum. (Forseti hringir.) Það er samfélagsskylda okkar allra sem þessa jörð byggjum að tryggja það að fólk geti flutt sig um set (Forseti hringir.) þó svo að landamæri hafi verið dregin hér og þar í gegnum undanfarnar aldir.