150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Tryggja það að fólk geti flutt sig um set, segir hv. þingmaður. Það hefur verið tryggt, eins og hann veit mætavel, í Evrópu. En hvernig gekk það fyrir sig? Hvernig virkar EES-samningurinn? Jú, hann gengur út á það að tryggja sem jöfnust réttindi og sem jafnastar aðstæður á milli landa til þess einmitt að menn geti fyrir vikið flutt sig um set. Þess vegna er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að ræða það í samhengi við þetta, alþjóðlegan straum, ekki bara flóttamanna heldur eins og hv. þingmaður segir, að fólk geti flutt sig um set, ræða mikilvægi þess að kjör almennings batni sem víðast í heiminum. En það er að sjálfsögðu háð því að menn búi við skynsamlegt stjórnarfar, ekki stjórnarfar eins og í Venesúela þar sem sósíalismi, sósíalískt stjórnarfar veldur einum mesta flóttamannastraumi heims.