150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég get ekki á mér setið eftir umræðuna sem hefur átt sér stað hér í dag, sér í lagi frá hv. 3. þm. Norðaust., Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en ég verð að segja að því miður voru ræða hans og andsvör þannig að þau komu ekki á óvart. Ég reyni alltaf að sjá ljósið í Miðflokknum. Ég reyni að líta þannig á að hann sé ekki að nýta sér ótta fólks eða fáfræði um málaflokkinn til þess að reyna að pumpa upp fylgi sitt, eins og einn hv. þingmaður fjallaði reyndar beinlínis um á ákveðinni krá á sínum tíma; förum ekki nánar út í það. En það þarf að leiðrétta það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fjallaði hér um, það þarf að leiðrétta það og það þarf að storka því þegar fólk kemur hingað upp í pontu til að búa til vandamál og til þess að gera öðrum upp skoðanir sem þeir hafa beinlínis sagt að þeir séu ekki að halda fram. Ég stóð hér og sagði beinlínis að ég væri ekki að tala um galopin landamæri. Ég væri að tala um að hægt væri að veita dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku sem virkaði t.d. fyrir Albani. Það eru mjög mörg útfærsluatriði þar sem ber að huga að og það eru ekki opin landamæri, virðulegi forseti. Opin landamæri fela í sér að það þarf ekki dvalarleyfi til að byrja með. Það er ekki það sem ég var að stinga upp á, ég vil bara halda því til haga.

Ástæðan fyrir því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir ósatt um þetta er vegna þess að það hentar málstað hans. Það er auðvelt fyrir hann að koma í pontu og segja að hann sé á móti því að galopna landamærin, það er bara mjög auðveldur málflutningur. Hann ræður ekki við þann málflutning að hugsanlega sé bara allt í lagi að hingað komi nokkrir Albanir og vinni, og að það sé alveg hægt að búa til lagaumgjörð sem þjóni því markmiði. Hann getur ekki komið hingað og útskýrt hvers vegna hann sé á móti því. Hann þarf að grípa til þess að segja ósatt um það hvernig aðrir hafa talað hér og fara að gaspra um opin landamæri og hvað eina. Það er sama orðræða og við sáum í umfjöllun um útlendingalög á sínum tíma. Þá átti nú aldeilis að galopna landamærin og því var haldið fram að við myndum algerlega missa stjórn á okkar landamærum og það er sama umræða og kom upp um samþykkt Sameinuðu þjóðanna um farendur.

Virðulegi forseti. Þetta er bara marklaus þvæla og hv. þingmaður veit það mætavel. Eins og hann virtist þó skilja hér í andsvörum áðan varðar þetta frumvarp engar breytingar á skilyrðum fyrir hæli. Og eitt hefur hann ekki heldur útskýrt, það er hvers vegna í ósköpunum honum finnst þetta góð hugmynd, og hann segist sjálfur, virðulegi forseti, leggja áherslu á að þessi þjónusta sé til staðar fyrir kvótaflóttamenn sem koma hingað í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, á sama tíma og hann myndi ekki bjóða upp á þessa þjónustu fyrir fólk sem kemur hingað upp á eigin spýtur og fær hæli, fær vernd. Hvers vegna ætti annar hópurinn að fá enga þjónustu, eins og verið hefur, og hinn hópurinn að fá þjónustuna samkvæmt hv. þingmanni sjálfum? Hvers vegna? Það hefur hann ekki útskýrt. Ástæðan er einföld. Það er vegna þess að hann vill þykjast styðja við leiðir sem eru augljóslega jákvæðar og virka augljóslega í dag eins og stuðningurinn við kvótaflóttamenn á sama tíma og hann vill næra og nýta sér ótta og í mörgum tilvikum fávisku fólks um málaflokkinn til þess að espa upp þann ótta og nýta sér það til pólitísks framdráttar. Það, virðulegi forseti, er óheiðarlegt og til skammar. Það er alveg hægt að vera ósammála um þennan málaflokk og þetta frumvarp án þess að grípa til slíkra aðferða, án þess að gera fólki upp skoðanir í pontu og búa til einhver vandamál sem eru ekki til staðar, bursta af borðinu allt sem fólk leggur fram án þess að koma með neitt í staðinn og segjast síðan leggja áherslu á lausnirnar sem viðkomandi mótmælir á sama tíma. Það er ekkert mál að haga sér svona. Hvaða stjórnmálamaður sem er getur gert þetta eftir tveggja vikna þjálfun í fjölmiðlum í framboði. Það hljóta allir stjórnmálamenn að vita. Það er bara ódýrt. Það er bara lélegt, virðulegur forseti, og mér finnst allt í lagi að segja það hér upphátt.

Ég vil nota lokasekúndurnar til að tala aftur um lausnirnar. Samþykkt Sameinuðu þjóðanna um farendur snýst um að reyna að búa til röð og reglu úr krísuástandi sem kemur upp af og til í málefnum farenda, t.d. vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi og sömuleiðis vegna Venesúela í dag og fleiri slíkar krísur munu verða á næstu áratugum, það er gefið. Það sem nærir mansalsglæpahringi og viðlíka samtök eru viðbrögð samfélaga við þessum farendavanda. Þetta er nákvæmlega eins og í vímuefnamálum, það er opinber stefna sem gerir það arðvænlegt að verða glæpakóngur í vímuefnamálum. Viðbrögð okkar skipta máli. Það skiptir máli hvernig lögin eru í landinu og það er alveg hægt að búa þannig um hnútana að við sinnum mannréttindum fólks (Forseti hringir.) og okkar eigin hagsmunum á sama tíma, hleypum fleira fólki inn, sjáum betur um það án þess að þurfa að grípa til óttablandinna taugaveiklunarviðbragða eins og hv. þingmaður mælir hér fyrir.