150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

459. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég vil í sem stystu máli þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og þeim nær og fjær sem hafa fylgst með henni. Ég þakka fyrir mjög gagnlegar ábendingar sem allir þeir sem hér hafa tekið til máls hafa komið á framfæri. Ég tek undir bjartsýni hv. þm. Helga Hrafns um meðferð á Alþingi. Ég tel að þetta mál verðskuldi að fá mjög ítarlega meðferð í þingnefnd og síðan að það komist aftur í þingsal til 2. umr.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason sagði rétt á undan, það þarf auðvitað að skipta ábyrgð með öðrum hætti en hér hefur tíðkast. Hún er felld nánast að öllu leyti á annan aðila lánasamnings, þann sem er veikari í samningssambandinu. Þetta er mjög brýnt og hér er gerð tilraun til að jafna þennan halla eilítið. Það þarf að gera miklu meira og í því tilliti að þessi kostur sé fyrir hendi þegar önnur úrræði hafa verið reynd og ekki gengið sé sá möguleiki að skila lyklunum og ganga frá borði.

Það er hárrétt sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi um vanskilaskrána. Það er sérstakt athugunar- og rannsóknarefni hvernig fólk ratar inn á hana. Það er sjálfstætt umræðu- og skoðunarefni og ég er þess fullviss að við munum fjalla um það síðar á þessu þingi.

Að svo mæltu, herra forseti, ítreka ég þakkir mínar og leyfi mér að lýsa þeirri von að við fáum þetta mál aftur í þingsal eftir umfjöllun á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar.