150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórn fiskveiða.

454. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum. Frumvarpið er lagt fram af þingflokki Viðreisnar ásamt þingmönnum úr stjórnarandstöðuflokkunum Samfylkingunni og Pírötum. Meginmarkmið frumvarpsins er stórt og mikið, það að auka gegnsæi í rekstri útgerða, trúverðugleika þeirra og ekki síst traust á atvinnugreininni fyrir samfélagið okkar og fyrir atvinnugreinina sem slíka og tryggja um leið að nýtingarréttur yfir auðlindinni safnist ekki á of fáar hendur. Þetta er alveg skýrt; gegnsæi, að auka traust og trúverðugleika og tryggja að nýtingarrétturinn á auðlindinni okkar sé ekki á örfárra manna höndum.

Frumvarpið hefur verið í vinnslu hjá okkur í Viðreisn í nokkuð langan tíma en það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú að skerpa leikreglurnar sem snúa að sjávarútveginum. Við vitum auðvitað öll hvers vegna en kannski þarf fyrst að telja upp fréttaskýringaþáttinn Kveik sem opinberaði þá miklu sérhagsmunagæslu sem hefur verið ríkjandi innan sjávarútvegsins allt of lengi. Auðvitað þarf að bregðast við því og ég er handviss um það, virðulegur forseti, að verði þetta frumvarp að lögum getum við tekið jákvæð skref í þá átt að auka traust og gegnsæi í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Þeir sem ráða yfir verulegu magni verðmæta þjóðarinnar verða að lúta skýrum leikreglum sem eru sanngjarnar fyrir þjóðina en líka fyrir þá sem starfa í greininni. Leikreglurnar mega ekki vera háðar handstýringu stjórnmálamanna eftir forskrift hagsmunagæsluaðila. Þess vegna er fólgið í þessu frumvarpi löngu tímabært réttlæti. Auðvitað er hér um að ræða ákveðna breytingu á því hvernig sjávarútvegsfyrirtækin starfa hérlendis. Þetta er tímabær breyting en alls ekki kollvörpun. Þvert á móti, virðulegi forseti, styður þessi breyting við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem í grunninn hefur reynst okkur Íslendingum farsælt. Ég vil undirstrika að þetta er fiskveiðistjórnarkerfið sem var sett á laggirnar að grunni til 1983. Með tilkomu kvótakerfisins 1990 var framsalið ákveðið með tilkomu vinstri flokka á sínum tíma og síðan hefur kerfið þróast. Það er vissulega ekki fullkomið, en eitt af því skynsamlega sem við höfum gert er að byggja á sjálfbærni og byggja á þessu kvótakerfi með þeim breytingum sem allir flokkar sem hafa setið á þingi hafa meira og minna komið að, sérstaklega í fortíðinni. En er það fullkomið? Nei, í ljósi reynslunnar og þróunarinnar eru skýrar kröfur nútímasamfélagsins sem við gerum til greinarinnar sem hefur einkarétt á nýtingu auðlindar okkar allra. Breytingarnar sem þetta frumvarp felur í sér styðja þvert á móti núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en kerfið þarfnast nauðsynlegs aðhalds. Það þarf aðhald svo kerfið brotni einfaldlega ekki. Í því felast þær breytingar sem við erum að boða í þessu frumvarpi.

Það eru raunhæfar líkur á því að ef við gerum ekki eitthvað markvisst — vel að merkja hafa engar tillögur komið frá ríkisstjórninni um hvernig sé einmitt hægt að auka traust og trúverðugleika. Þetta er allt í einhverjum nefndum og hópum þegar það liggur alveg ljóst fyrir hvað það er sem við þurfum að gera til að tryggja gegnsæið og traustið. Ef fram heldur sem horfir og ríkisstjórnarflokkarnir, vonandi með þverpólitískum stuðningi, fara ekki í þær breytingar sem m.a. við í Viðreisn boðum hér aukast líkur á því að kerfið brotni. Ég heyrði ekki betur en að félög og stjórnmálaflokkar úti í bæ væru þegar byrjuð að boða grundvallarbreytingar á þessu kerfi. Þess vegna er þessi tillaga svo mikilvæg. Hún er jákvæð breyting í mínum huga og mikilvæg og brýn uppfærsla þar sem við erum að skerpa, eins og ég hef sagt, á leikreglunum og að eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, hafi beinni aðgang og skýrari upplýsingar um það hverjir halda raunverulega á nýtingarréttinum.

Með tillögunni eru með skráningu á markað tryggðar ákveðnar leikreglur sem eru mikilvægar fyrir þjóðina en líka hluthafa. Með dreifðri eignaraðild á útgerðunum sjálfum er síðan verið að tryggja að þegar þær ráða yfir tilteknu magni af aflahlutdeild komist fleiri að eignaraðildinni með því að bjóða upp á almenningshlutafélög. Þar með er tryggt að okkar allra stærsta auðlind, fiskveiðiauðlindin, safnist ekki á of fáar hendur. Komum við í veg fyrir samþjöppun? Nei, við höfum séð að samþjöppun og hagræðing í greininni hefur skilað talsverðu, en það er lykilatriði að gegnsæi ríki og þegar það er komið yfir ákveðinn þröskuld, við getum kallað það trúverðugleikaþröskuld, sem kallar á að þjóðin vilji vita nákvæmlega, meira og betur um þessi stóru útgerðarfyrirtæki, verða útgerðarfyrirtækin einfaldlega að lúta almennum gegnsæjum leikreglum, hvort sem það er í gegnum þetta frumvarp eða þær reglur sem almenningshlutafélög setja okkur öllum.

Ég undirstrika að við erum stolt af sjávarútveginum okkar. Hann er að meginuppistöðu til vel rekinn og hann hefur skilað á síðustu árum miklum arði inn í þjóðarbúið í heild sinni. Aflahlutdeildarkerfið er uppistaðan í hagfræðilegri fiskveiðistjórn og það kerfi byggir síðan á sjálfbærri þróun. Það er afar þýðingarmikið og hefur leitt til þess að aðrar þjóðir hafa einmitt leitað til okkar varðandi það hvernig við höfum byggt upp sjálfbæra þróun og verið trúverðug á því sviði. Þá skiptir Hafrannsóknastofnun máli og að við geldum hana ekki. Það er skrýtið að sjá núna ýmsa einstaklinga, m.a. innan stjórnarflokkanna, sá efasemdafræjum í garð Hafrannsóknastofnunar þegar við eigum þvert á móti, bæði út af sjávarútveginum en ekki síður út af fiskeldinu, að hlúa að þeirri stofnun af því að hún stuðlar að því að kerfið okkar fær enn meiri trúverðugleika.

Við vitum sem sagt líka að auðlindin er takmörkuð sem þýðir að ekki geta allir stundað fiskveiðar af líffræðilegum ástæðum. Þess vegna kallar ekki síst sú staðreynd á að allir skilji og viti hverjir eru raunverulegir eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna og hafa þennan einkarétt til nýtingar á auðlindinni okkar. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa í nútímasamfélagi og ég vonast til þess að menn, ekki síst innan stjórnarflokkanna, fari nú að vakna við þessa eðlilegu og sanngjörnu kröfu. Í þessu felst engin kollsteypa heldur eðlileg krafa nútímasamfélags sem ýtir undir það að auka traust og trúverðugleika greinarinnar sjálfrar. Og hvað þýðir það? Það þýðir ákveðinn fyrirsjáanleika og það treystir undirstöður greinarinnar sem verður arðbærari til lengri tíma.

Með þessu frumvarpi er möguleiki á að brjóta upp það tangarhald sem fámennur hópur í íslenskum sjávarútvegi hefur haft á greininni og þar með íslensku samfélagi. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað á meðal þeirra sem hafa fengið úthlutað kvóta eða keypt hann af öðrum. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Fiskistofu sem gefin var út í janúar 2019 komu fram miklar brotalamir sem varða eftirlit á yfirráðum tengdra aðila í sjávarútvegi. Lagði Ríkisendurskoðun til að ráðist yrði í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja mætti markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Frumvarp þetta er liður í því og strax í kjölfarið á þessari skýrslu fórum við í Viðreisn að vinna tillögur í þessa veru. Það er sérstakt að nú, þegar ár er liðið síðan þessi skýrsla kom út, hefur ríkisstjórnin enn ekkert í handraðanum, ekkert tilbúið til að mæta bæði athugasemdum Ríkisendurskoðunar og eðlilegri trúverðugleika- og gegnsæiskröfu almennings. Í núgildandi lögum teljast aðilar tengdir ef sjávarútvegsfyrirtæki á meiri hluta í annarri útgerð en lítið sem ekkert eftirlit hefur verið með þessu og mikilvægt er að gera á því verulegar úrbætur eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á. Í frumvarpinu er síðan skýrt kveðið á um að aðilar verði tengdir þar sem annar aðilinn ræður yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira og hinn á beint eða óbeint 10% hlutafjár eða meira í þeim fyrrnefnda. Einnig er skýrt kveðið á um að aðilar þar sem annar aðilinn ræður yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira og á kröfur á hinn í þeim mæli að ætla má að fyrrnefndir aðilar geti haft áhrif á reksturinn er skylt að upplýsa um slík tengsl.

Í frumvarpinu er síðan ný málsgrein þar sem kveðið er á um að ráði aðili yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira sé honum skylt að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá það á skipulegum verðbréfamarkaði. Ég hef fundið að fólk hefur haft áhyggjur af því að þetta væri of lágt. Við skulum þá bara fara yfir það. Það verður að setja skýrar kröfur um að þegar menn eru komnir yfir ákveðið hlutfall af heildaraflahlutdeild verði hlutirnir að vera gegnsærri en nú er. Síðan er það að ráði aðili yfir 8–12% heildaraflahlutdeildar geti einstakur hluthafi eða tengdir aðilar ekki farið með meira en 10% hlutafjár eða atkvæðisréttar í félaginu.

Það er staðreynd alls staðar í öllum löndum að atvinnuvegir sem fá að nýta sameiginlegar auðlindir án endurgjalds eða með of lágu endurgjaldi eru yfirleitt mun arðbærari en aðrir. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Þetta segir sig sjálft og þess vegna er nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um þess konar starfsemi sem hefur einkarétt að auðlind í eigu þjóðar. Ef við pössum ekki upp á þetta getur þróunin orðið sú að traust í garð viðkomandi atvinnuvegar rýrist og minnki og það skapar og leiðir af sér óæskilegt umhverfi sem má að mörgu leyti líkja við það sem við höfum orðið vitni að, m.a. í Namibíu.

Virðulegi forseti. Að vissu leyti er orðinn ákveðinn trúnaðarbrestur milli sjávarútvegs og þjóðarinnar sem hefur ágerst og aukist síðustu ár, ekki síst síðustu mánuði. Að mínu mati hefur þessi ríkisstjórn líka verið einkar lagin við að ýta undir nákvæmlega þennan trúnaðarbrest og með nokkuð sýnilegum hætti. Það er hægt að taka nýjasta dæmið þar sem tillögur hennar um lækkun veiðigjalda var samþykkt af ríkisstjórnarflokkunum og reyndar Miðflokknum líka. Tillögur okkar í Viðreisn um m.a. tímabindingu aflaheimilda, sem er algjört lykilatriði til að tryggja yfirráðarétt þjóðarinnar á auðlindum, voru felldar. Þær hafa tvisvar verið felldar og tillögur okkar, m.a. sem hægt er að hugsa í tilraunaskyni varðandi makrílinn, að setja hluta eða allan makrílinn á uppboð til að fá réttmætt og réttlátt gjald fyrir makrílinn, hafa líka allar verið felldar.

Þess vegna segi ég að þessi ríkisstjórn hefur verið einkar lagin við að ýta undir trúnaðarbrest milli þjóðar og atvinnugreinar.

Þessi tillaga hér er að okkar mati ein raunhæfasta lausnin til að endurvekja traust í garð greinarinnar, að gera starfsemi útgerðarinnar gegnsærri, gera kröfu um dreifða eignaraðild og afmarka með skýrari hætti en nú er gert það hámark í heildaraflahlutdeild sem einstakir aðilar eða tengdir aðilar geta ráðið yfir. Eins og ég undirstrikaði áðan er þetta ekki tillaga um gagngerar breytingar á kvótakerfinu heldur skarpari línur, skarpari reglur og skýrari kröfur þegar verið er að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Það er því að mínu mati alveg kýrskýrt að aldrei hefur verið jafn mikilvægt og nú að skerpa á þessum lögum. Það er mikið og margt í húfi að það sé skýlaus krafa af hálfu ríkisins að þeir sem fari með auðlindirnar okkar geri það á gegnsæjan hátt og að arðurinn skili sér í þjóðarbúið, að það sé skýrt hverjir hagnist raunverulega á sjávarútveginum, að það sé ekki einhliða og undir örfáum einstaklingum komið hvernig arðinum er skipt af sameiginlegri auðlind og ekkert eftirlit með því hvernig það svo er.

Hluti af trúnaðarbrestinum og þessu litla gegnsæi er til að mynda hávær krafa sjómanna sem við upplifðum skýrt í sjómannaverkfallinu þar sem er vantrú á því hvernig fiskverð er mótað og hvernig það myndast á markaði. Auðvitað er það ákveðin vantrú þegar launakjör sjómanna hanga á því hvernig verðið myndast. Það er allt of lítið gegnsæi í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar og við verðum að ýta undir að það verði meira.

Viðreisn hefur frá stofnun flokksins talað fyrir opnara og gegnsærra kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði og við erum ekki hætt. Kjörorð okkar er að við veljum almannahagsmuni, ekki sérhagsmuni. Við veljum frjálslyndi, ekki íhaldssemi. Við veljum gegnsæi, ekki feluleik eða leyndarhyggju. Við veljum opið, skýrt og skiljanlegt kerfi, ekki lokað. Við trúum því að skerping á þessum leikreglum sé nauðsynleg til að koma á sátt um grundvallarkerfi samfélagsins. Það er búið að bjóða upp á þessa sátt. Hún hefur legið fyrir alveg frá árinu 2000 með niðurstöðum auðlindanefndarinnar um það hvernig ætti að haga fyrirkomulagi auðlindagjalds og setja ákvæði í stjórnarskrá. En ekkert hefur verið gert og það er engin tilviljun af því að þungi hefur verið settur í það af hálfu hagsmunaaðila í þessari grein að ekkert eigi að gera. Málin eru alltaf þvæld fram og til baka þótt það sé oft ríkur vilji á þinginu til að gera betur.

Ég vil leyfa mér að segja að í velflestum flokkum vilja menn gera betur í þessu efni. Tortryggni og vantraust hefur verið allt of mikið umlykjandi í þessari grein í langan tíma og núna er tækifæri fyrir okkur, m.a. í gegnum þetta mál okkar, að taka betur utan um greinina sem er okkur svo mikilvæg með því að setja almannahagsmuni í fyrirrúm og hafa í fyrirrúmi gegnsæi og þau gildi sem ég trúi og fullyrði að drjúgur þorri þjóðarinnar fylgi. Ég geri mér grein fyrir því að sumir hverjir geta og munu fara upp á afturlappirnar við framlagningu þessa frumvarps. Ég hef þegar orðið þess áþreifanlega vör. Það eru vafalaust einhverjir sem munu gera hvað sem er og hafa til þess efni og þunga til að stoppa frumvarpið í meðferð þingsins og það er líka gömul saga og ný en ég bið okkur um að stíga aðeins til baka og hafa heildarmyndina í huga. Það eru hagsmunir sjávarútvegsins að við höldum áfram að þróa okkur. Það eru hagsmunir samfélagsins að við reynum að tryggja þessa eðlilegu kröfu okkar um gegnsæi og sanngirni í tengslum við sjávarútveginn. Þetta eru ekki bara einhverjir frasar, við erum hérna með tillögur um hvernig við nálgumst þetta, mjög skýrt afmarkaðar tillögur um hvernig við ætlum að ná þessu, hvernig við ætlum að ná gegnsæinu og trúverðugleikanum í sjávarútveginum. Þessar tillögur snerta það nákvæmlega. Þetta eru ekki bara einhverjir frasar heldur liggja fyrir tillögur af okkar hálfu.

Samhliða því að tryggja eðlilega eignadreifingu og valddreifingu í sjávarútvegi og þar með treysta framtíð hans með því að reka hann fyrir opnum tjöldum verðum við og munum í Viðreisn halda áfram, þó að það sé ótengt nákvæmlega þessu frumvarpi, að tala um eðlilegt gjald fyrir einkarétt á nýtingu auðlindarinnar. Að sjálfsögðu munum við fylgja því eftir að auðlindaákvæði í stjórnarskrá verði með einhverju biti og innihaldi þannig að við tryggjum m.a. tímabundinn veiðirétt sem grundvöll fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni og tryggjum þannig raunverulega rétt þjóðarinnar til þessarar auðlindar. Í auðlindaákvæðinu eins og það lítur út núna er ekkert hald. Það er bara sýndarmennska að mínu mati þó að ég vilji engu að síður segja að ég trúi því að við eigum eftir að vinna það betur. Kannski er ég pínu Pollýanna hér en ég ætla að leggja traust mitt á það að forsætisráðherra vilji raunverulega breytingar á stjórnarskránni þegar kemur að auðlindaákvæðinu og láti það ráða för en ekki það hvort ríkisstjórnin muni halda saman vegna stjórnarskrárinnar, að aðkoman verði sú að við verðum með raunverulegt auðlindaákvæði í stjórnarskrá en ekki eitthvert ákvæði sem treysti böndin milli stjórnarflokkanna. Við þurfum ekki á því að halda. Nú er einstakt tækifæri til að taka mikilvæg og markviss skref til að breyta stjórnarskránni þannig að eitthvert hald sé í fyrir afkomendur okkar til lengri og skemmri tíma.

Að því sögðu vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að mæla fyrir því hér í lokin að frumvarp þetta gangi til meðferðar hjá hv. atvinnuveganefnd og til 2. umr. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að málið fái góðan og skjótan framgang og umfjöllun þar. Það er einlæg von mín að við náum saman um að leggja lóð okkar allra á vogarskálarnar um að auka eftirsóknarvert traust og trúverðugleika gagnvart þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar þannig að við sjáum að þjóðin geti treyst því að við komum hér með tillögur sem raunverulega ýta undir framfarir í sjávarútvegi og lagaumgjörð fyrir sjávarútveginn sem ýti undir rétt þjóðarinnar. Það er réttlætismál fyrir íslenskt samfélag og í rauninni stóru skilaboðin í því frumvarpi sem ég er hér að mæla fyrir. Þetta er tækifærið okkar til lausna fyrir sjávarútveginn með hagsmuni almennings í fyrirrúmi. Í þessu frumvarpi kjarnast umræðan um að velja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni. Fyrir margra hluta sakir, virðulegi forseti, tel ég rétt að segja núna bæði í tengslum við þetta frumvarp og líka það sem kannski er að gerast akkúrat núna: Fyrir Ísland og áfram Ísland.