150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi.

203. mál
[19:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta svar. Við erum þá sammála um að álftinni hafi fjölgað það mikið að hún sé orðin vandamál víða um sveitir. Við erum sammála um það og þá þarf að stemma stigu við því. Mér heyrist hv. þingmaður vera sammála mér í því. Eins og ég sagði í spurningu minni áðan sé ég fyrir mér að hugsanlega væri hægt að úthluta einhvers konar kvóta til veiðimanna um að nú mættu þeir veiða á einhverju svæði svo og svo margar álftir, hugsanlega eftir aldri, þ.e. yngri fuglinn. Ég held að það væri ekkert stórmál að fækka álftinni þannig og hafa gott eftirlit með því.

Auðvitað skil ég líka að þessi tillaga gangi út á að gera áætlanir. Við skulum vona að eitthvað komi út úr því, að það gerist hratt, að þetta verði ekki látið viðgangast og menn fái einfaldlega að bíta í það súra epli að tapa miklum verðmætum í kjaftinn á þessum fuglum, kannski að ófyrirsynju vegna þess að við þorum ekki að taka af skarið til að fækka ofvexti, fækka aðeins í álftastofninum vegna ofvaxtar stofnsins hér á landi. Hann er greinilegur.

Ég man þegar ég starfaði hjá sýslumanninum á Selfossi. Það er orðið langt síðan en þá var álftastofninn líklega helmingi minni en í dag. Þetta var mikið vandamál þá strax og bændur í öngum sínum að geta ekki spannað frá eða fækkað álftinni. Það voru engin ráð vegna þess að hún er auðvitað friðuð eins og hv. þingmaður veit.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann í lokin hvort þessi stjórnunar- og verndaráætlun muni þá ganga út á að í framhaldinu verði hægt að aflétta friðuninni að takmörkuðu leyti.