151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

um fundarstjórn.

[11:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Varðandi næsta mál á dagskrá, sem er áframhaldandi umræða um samvinnufélög og önnur félagaform og sektarákvæði er snúa að kynjahlutföllum í stjórn, langar mig að minna á orð forseta frá því umræðu var frestað hinn 7. desember síðastliðinn þar sem sagði, með leyfi forseta:

„Umræðu um 7. dagskrármálið er nú frestað og hefur framsögumaður málsins upplýst mig um að heppilegast sé að það sé kallað aftur til nefndarinnar á þessu stigi og verður það þá gert. Umræðunni er frestað og gengur málið aftur til hv. atvinnuveganefndar.“

Svo mörg voru þau orð þann 7. desember síðastliðinn. Það er algerlega augljóst, og sérstaklega af orðum hv. þingmanns og framsögumanns málsins, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, í gær að það er ekki skilningur nefndarmanna að málið hafi eiginlega gengið aftur til nefndar til frekari umfjöllunar fyrir lok 2. umr. Ég vil beina því til forseta að ræða það við hæstv. forseta Steingrím J. Sigfússon, hvort ekki sé ástæða til að skoða þetta sérstaklega í þessu samhengi og forvitnast um afstöðu nefndarmanna til þess hvort þeir líti svo á að ástæða sé til að taka málið til frekari vinnslu áður en 2. umr. lýkur.