152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

um fundarstjórn.

[10:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp eina ferðina enn í gær vegna sífelldra lögbrota Útlendingastofnunar, í skjóli hæstv. dómsmálaráðherra, þar sem stofnunin neitar að afhenda þinginu gögn sem þingið þarf á að halda. Einhver ágreiningur var um það hvort Útlendingastofnun bæri skylda til að afhenda þinginu gögn sem þingið fór fram á, og allsherjar- og menntamálanefnd fór formlega fram á í lok desember sl. og ítrekaði í janúar. Hefur hæstv. dómsmálaráðherra haldið því fram í fjölmiðlum og annars staðar að ákvæði það sem Alþingi vísaði til, 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, ætti ekki við í málinu. Nú hefur komið fram lögfræðiálit frá lagaskrifstofu þingsins sem staðfestir að stofnuninni beri að afhenda þinginu gögn samkvæmt þessari beiðni og bar raunar að gera það innan sjö daga eftir að beiðnin var lögð fram og í allra síðasta lagi 1. febrúar, en nefndin veitti stofnuninni náðarsamlegast þann frest til þess að afhenda gögnin.

Ég vil ítreka hér í dag beiðni mína til forseta þingsins, hæstv. forseta, um að grípa inn í málið og tala fyrir hönd þingsins, gæta að virðingu þess. Ég óska eftir svörum við því hvernig forseti hyggst bregðast við þessu valdaráni.