152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Sigmars Guðmundssonar. Mér þykir ekki fullnægjandi meðferð á málinu hjá hæstv. forseta að íhuga að fara í einhvers konar viðræður við stjórnvöld sem koma í veg fyrir að Alþingi geti uppfyllt sínar lagalegu skyldur. Hér er ekki um að ræða að neita að afhenda gögn sem fastanefnd biður um vegna eftirlitsskyldu sinnar. Þetta eru gögn sem er lögbundið að Útlendingastofnun afhendi, þannig að ég átta mig ekki alveg á því af hverju var yfirleitt verið að skoða þessa 51. gr., af því að það er í rauninni annars konar málsmeðferð. Hér er bara um að ræða að Útlendingastofnun, sem hefur verið falið þetta verkefni að taka á móti umsóknunum af framkvæmdarvaldinu — sem við getum bara ákveðið að hætta að hafa með þeim hætti — skal hins vegar afhenda ákveðin gögn, skal. Þetta er ekki valkvætt. Útlendingastofnun skal útvega gögn frá lögreglu og skal veita umsögn. Það er ekkert val, herra forseti. Nú þarf herra forseti að standa með þinginu og berja í borðið.