152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

aukin orkuþörf.

[10:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Að undanförnu hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans hver af öðrum komið fram og lýst því yfir að þeir hafi uppgötvað að það sé þörf fyrir meiri orkuframleiðslu í landinu. Það hefur verið reynt að benda á þetta í allmörg ár en það hefur vakið, má segja, takmarkaða athygli hjá þessari ríkisstjórn. En nú hefur hæstv. forsætisráðherra bæst í þennan hóp og tekur undir það að það muni þurfa að auka hér framleiðslu á orku, virkja meira.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem stjórnvöld létu taka saman þar sem kemur á daginn að það muni þurfa að auka orkuframleiðslu um 125%, m.a. til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um orkuskipti. En hvernig stendur á því að ekki var hugað að þessu sem hlýtur að vera grundvallaratriði í orkuskiptum? Hvers vegna var ekki hugað að orkunni sjálfri þegar ríkisstjórnin var að undirbúa og kynna áform sín eða a.m.k. markmið í loftslagsmálum? Ég geri mér grein fyrir að loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar var fyrst og fremst hugsuð sem einhvers konar pótemkintjöld í skýrsluformi, en hefði ekki verið skynsamlegt að huga að framleiðsluhlið málsins og því hvernig menn myndu standa að því að uppfylla hana?

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvernig verður farið að því að tryggja næga orkuframleiðslu á Íslandi næstu árin? Nú bið ég um tiltölulega einfalt og skýrt svar, ekki erindi — eins skemmtileg og þau geta nú verið frá hæstv. ráðherra eins og við heyrum stundum hér en ættu betur heima á flokksfundi hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði — heldur skýr svör til Alþingis. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að hægt verði að auka orkuframleiðslu á Íslandi eins og þörf er fyrir?