152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með félögum mínum í Samfylkingunni, við þurfum að fara að sjá þessi stjórnarfrumvörp og þessi stjórnarmál. Við erum komin fram í mars, það var kosið í september ef ég man rétt og það hlýtur eitthvað að fara að ganga undan þessari ríkisstjórn. Skárra væri það nú. Ég bý að þeirri reynslu að hafa setið í átakshópnum sem skilaði tillögum til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir tveimur árum rúmlega, 40 tillögum í húsnæðismálum. Sumar þeirra hafa verið settar í farveg en þar var af hálfu aðila verkalýðshreyfingarinnar lögð þung áhersla á stöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, þung áhersla. Þar hefur ekki bólað á neinum tillögum. Og það þýðir ekki að koma hér upp dag eftir dag og skreyta sig með frösum um eitthvað sem kannski hafi gerst eða markmiðið hafi verið þegar þau markmið hafa ekki verið uppfyllt. Ég skora á hæstv. forseta að setja nú tangirnar á ríkisstjórnina og láta eitthvað fara að gerast hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)