152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni. Þingmálaskráin er rosalega mikilvægt plagg fyrir Alþingi. Þarna kemur ríkisstjórnin og segir hvaða mál þingið þarf að undirbúa sig undir að afgreiða. Af gefinni reynslu stenst það aldrei. Það er gagnslaust plagg. Það hjálpar okkur nákvæmlega ekki neitt til að undirbúa og skipuleggja störf okkar hérna, ekki neitt. Að mínu mati er það forseta að vera dálítið harður á því að það sé staðið við þessa þingmálaskrá. Þetta á að vera ákveðinn samningur framkvæmdarvaldsins við þingið: Þetta er það sem þið þurfið að undirbúa ykkur fyrir og skipuleggja ykkur fyrir. Það er forseti sem þarf að framfylgja þessum þingmálasamningi því að þetta er okkar vinna og okkar tími sem fer í að undirbúa okkur fyrir verkefni sem ríkisstjórnin segist leggja fyrir þingið. Svo kemur ekkert. Það er tímaeyðsla (Forseti hringir.) fyrir okkur að vera að undirbúa okkur fyrir eitthvað sem er brotið svona gríðarlega oft. (Forseti hringir.) Ég legg til við hæstv. forseta að sýna þessu núna alvarlegan skilning (Forseti hringir.) og ganga á eftir ríkisstjórninni hvað það varðar að staðið sé við þingmálaskrána.