152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það gengur nógu erfiðlega að draga svör upp úr ráðherrum með töngum. Það þarf sennilega stórvirkari verkfæri til til að fá þau til að leggja fram mál, þau draga lappirnar og vísa í samráðshópa. Hér liggja fyrir fjölmörg frumvörp frá stjórnarandstöðunni sem hægt væri að samþykkja. En líklega á að nota gamla trikkið: Við getum ekki samþykkt eitthvað sem stjórnarandstaðan leggur til. Við ætlum að gera eins og gert var í tilfelli frumvarps um bann við olíuleit, sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, lagði fram og fékk ekki afgreiðslu en er svo á þingmálaskránni núna, svo ekki sé nú talað um afglæpavæðingu neysluskammta, frumvarp hv. þingkonu Halldóru Mogensen. Spurningin hlýtur að vera: Hvernig vinnum við hér inni? Fyrir hvern vinnum við, bæði þing og ráðherrar? Við hljótum að hvetja stjórnarliða til að skoða málin sem koma frá stjórnarandstöðunni sem geta verið líkleg til að laga vanda sem Framsóknarflokkurinn hefur a.m.k. talað um að þurfi að laga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)