152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:39]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samfylkingin gæti e.t.v. haldið félagsfund um hversu vel hefur gengið, í hinum ýmsu bæjarfélögum sem Samfylkingin stýrir, að stuðla að opinberri uppbyggingu. Ég get talið til Reykjavík, Reykjanes, Akureyri, Ísafjörð. Það er verið að tala hér um hlutfall íbúða og hversu vel sé byggt — 50% af nýjum íbúðum sem hafa verið byggðar á undanförnum tveimur árum eru í Reykjavíkurborg en þar býr aðeins um þriðjungur landsmanna. Hvernig er það í þeim sveitarfélögum þar sem Framsókn er í stjórn? Í Hafnarfirði hefur t.a.m. lítið sem ekkert gerst í húsnæðismálum allan þennan tíma. Þetta er bara enn annar útúrsnúningurinn þegar kemur að húsnæðismálum hjá ríkisstjórninni. Puttanum er alltaf beint að sveitarfélögunum eins og ekkert geti gerst hjá ríkisstjórninni í þessum málum. Hvernig væri að innleiða hlutföll um fjölda félagslegra íbúða í sveitarfélögum? Hvernig væri að horfa til þess að hér eru skjalatöskuverktakar sem halda á lóðum og neita að byggja á þeim? Það eru engar kvaðir á þá sömu verktaka að byggja á þeim lóðum eins og er í löndunum í kringum okkur og þetta er bara orðið fjárfestingarverkfæri. Það er nóg hægt að gera hjá ríkisstjórninni.