152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði líka að fá að bregðast aðeins við orðum hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Hún birtist okkur svolítið sérkennilega þessi nýja byggðastefna Framsóknarflokksins, sem hingað til hefur talað fyrir því að það eigi að efla byggð úti á landi og fólksstraumur til höfuðborgarinnar sé ekki endilega það sem við viljum, þegar staðreyndin er sú að Reykjavíkurborg hefur byggt umfram hlutfallslegan fjölda á landsvísu og gert lengi. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru með allt niður um sig í þessu, ekki síst Hafnarfjörður, (Gripið fram í.) ekki síst Garðabær, ekki síst Kópavogur (Gripið fram í.) og ekki síst Mosfellsbær. [Háreysti í þingsal.] Það er alveg með ólíkindum að heyra þetta. (Forseti hringir.) Þegar síðan bætist við að þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum eru byggðar í Reykjavík þá eru menn að tala hér tóma þvælu og steypu. Framsóknarflokkurinn er að biðja um að hlutfallslega verði byggingum og nýbyggingum fjölgað í Reykjavík. Það þýðir að hlutfallslega, miðað við mannfjölda á landinu öllu, mun fækka á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)