152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er orðinn rólegur, ég ætla ekki að berja í pontu og biðst afsökunar á því. En mér verður heitt í hamsi þegar við stöndum hér eins og í einhverjum sirkus, talandi um hver gerði hvað og hver gerði ekki hvað, á sama tíma og úti er fólk sem blæðir, fólk sem sér reikninginn sinn hækka um tugi þúsunda í hverjum mánuði, láglaunafólk sem hefur reynt að koma sér þaki yfir höfuðið vegna þess að því var lofað lágu vaxtaumhverfi. Nú situr það með þetta í fanginu og veit ekkert hvað það á að gera. Það er hægt að grípa til lausnar hér strax. Stöndum í lappirnar og styðjum við þennan hóp. Við höfum til þess tilfærslukerfi. Nýtum þau. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)