152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar varnarsamning okkar við Bandaríkin, sem er allt frá árinu 1951, og hefur lagagildi sem er heldur óvenjulegt, þá hafa á grundvelli hans verið gerðir afleiddir samningar sem varða tæknileg atriði, útfærslur og líka efnisleg atriði. Varnarsamningurinn er þannig í raun alltaf í ákveðinni þróun án þess að hann sé formlega tekinn upp og honum breytt. Hann er bara bundinn í lög og svo hafa verið gerðir við hann viðaukar varðandi ákveðnar útfærslur og hann er í þróun. Ég sé því ekki fyrir mér að við munum taka samninginn upp. Ég held að í raun sé engin þörf á því að taka varnarsamninginn upp og breyta honum og leggja hann aftur fram sem frumvarp og gera að lögum, heldur sé hann að einhverju leyti, má segja, lifandi plagg vegna þess að hann er í sífelldri þróun. Við hann hafa verið gerðir viðaukar og það er mikið svigrúm innan hans. Við gætum því aukið mjög á samstarf okkar á grundvelli hans og líka með tilliti til, eins og hv. þingmaður nefnir hér og hefur gert áður og ég er sammála, þessara, að segja má, nýju og mjög vaxandi ógna sem eru netógnir, fjölþáttaógnir og netöryggismál, þar sem það gæti haft einhver áhrif bæði innan Atlantshafsbandalagsins og í samskiptum okkar við Bandaríkin. En í viðleitni okkar til að bæta stöðu okkar þegar kemur að netógnum má líka vel vera að við munum frekar leita í annað alþjóðasamstarf og jafnvel við aðrar vina- og bandalagsþjóðir en Bandaríkin upp á frekara samstarf, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. En varnarsamningurinn er í sífelldri þróun og það er ekki þörf á að taka hann upp til að lögbinda hann í breyttri mynd heldur vinna með það sem þegar er fyrir hendi.