152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þar erum við fullkomlega sammála, ég og hæstv. ráðherra, að jafnrétti, mannréttindi og lýðræði skipta auðvitað lykilmáli. Ég held að það verði þá bara að vera orð á móti orði en ég er viss um að Evrópusambandið á eftir að gegna stærra hlutverki í því samhengi í framtíðinni. Evrópa í heild sinni, utan bandalags og innan, er útvörður þessara gilda og við hljótum að þétta samstarfið með þeim löndum. En við tökum hugsanlega bara umræðu um Evrópusambandið mjög fljótlega.

Varðandi tollana. Jú, jú, það er vissulega þannig að ríki vinna með einhvers konar tolla og annað, en það þarf að vera eitthvert kerfi í galskapnum, ef svo má segja. Matvælaöryggi er auðvitað miklu flóknara fyrirbæri en bara að verja einhverjar vörur vegna þess að það eru auðvitað vélar og olía og alls kyns aðföng sem skipta máli og það þarf að horfa á hlutina í heildarsamhengi. Það er sérstaklega furðulegt í rauninni að vera einhvern veginn að refsa fyrir innflutning á vörum sem ekki eru framleiddar hér og munu ekki verða framleiddar hér. Þetta er líka neytendamál. Þetta er ekki bara spurning um framleiðanda. Þetta er líka vont vegna þess að þetta dregur úr nýsköpun. Ef við tökum nú bara ostana, þegar það var nú aðeins aukið á innflutning á ostum til landsins, ég meina, ekkert hefur gert íslenskum ostalandbúnaði betra vegna þess að þá spruttu allt í einu upp nýjar og nýjar tegundir sem voru a.m.k. jafn samkeppnishæfar og þær sem fluttar eru að utan. Þannig að ég held að það geti falist í þessu tækifæri fyrir landbúnaðinn í heild sinni, að þau takist bara á við heiðarlega samkeppni. En ég þakka aftur fyrir ágætisskýrslu og innlegg.