152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina og þeim þingmönnum sem hafa talað. Sú skýrsla sem hér liggur fyrir, og barst sannarlega frekar seint, er eitthvað sem ég hvet fólk almennt til að fletta í gegnum því að þar er margt mjög áhugavert og ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í núna þegar augu okkar beinast dálítið mikið til Úkraínu. Þá er líka enn mikilvægara að kynna sér kannski frekar hvað það er sem íslensk utanríkisþjónusta er að gera og íslensk ríkisstjórn og landið í sjálfu sér. Það segir í skýrslunni, eins og við vitum, að vegna faraldursins hafi efnahagsstarfsemi truflast í öllum heiminum og ekki síst í fátækari löndum. Það er afskaplega dapurlegt þótt það sé þekkt staðreynd að þegar slíkt gerist fjölgar sárafátæku fólki. Talað er um að ríflega 100 milljónir hafi bæst í þann hóp.

Við þekkjum og höfum heyrt mjög víða rætt um röskun á skólagöngu barna og ýmislegt fleira. Hér eru einmitt nefndar bólusetningar vegna alvarlegra smitsjúkdóma og að bakslag hafi orðið á sviði jafnréttis- og mannréttindamála. Þetta eru líka þekktar afleiðingar stríðsástands. Þetta er ekki bara þekkt ástand þegar upp koma faraldrar eins og við höfum verið að ganga í gegnum. Það er auðvitað vegna alls þess ástands og breytinga í loftslagi og fleira sem fleiri og fleiri þurfa á neyðaraðstoð að halda. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að á þriðja hundrað milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð og vernd að halda. Þar fjölgar talsvert mikið á milli ára og eins og hér hefur verið rætt bætir væntanlega í þá tölu í ljósi ástandsins í heiminum núna.

Þó að hér sé talað um 1% mannkyns þá erum við að tala um yfir 80 milljónir manna sem eru á flótta í heiminum. Stór hluti á kannski ekki afturkvæmt og stærstur hluti þessa fólks er í þróunarríkjunum. Talað er um að um 800 milljónir manna búi við vannæringu og hungursneyð og áfram vofir það yfir í fleiri löndum. Hér eru talin upp nokkur lönd; Suður-Súdan, Jemen og norðurhluti Eþíópíu, Afganistan og Nígería. Það má nefnilega ekki gleyma því að ástandið í Afganistan er svakalegt og mjög stutt síðan við vorum ansi mörg að tala um það, þó að hitt sé nær okkur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við rifjum upp að það er því miður mjög bágborið ástand mjög víða. Það sem við höfum talað fyrir á sviði utanríkismála eru auðvitað fyrst og fremst mannréttindi, að við styðjum og reynum að koma þeim á framfæri hvar sem við komum. Það er fyrst og fremst skylda okkar.

Bara svo að ég fari í aðeins í gegnum skýrsluna þá ætla ég að velta upp þróunarsamvinnu. Við hækkuðum framlögin um ríflega 80% á síðasta ári og erum sannarlega í 0,35% og okkar markmið á ævinlega að vera stærra og a.m.k. að ná því lágmarki, sem er 0,7%, sem lagt er til. Ég held að allir séu sammála um það og við stöndum að því saman að halda áfram á þeirri braut. Mig langar aðeins að tala um þróunarsamvinnu. Ég hef orðið þess aðnjótandi, aðnjótandi er kannski ekki gott orð í sjálfu sér en ég hef átt þess kost að fylgjast með dóttur minni sem hefur starfað núna í tíu ár meira og minna í slíkum störfum á erlendri grundu, allt frá Kamerún og Mósambík til Venesúela. Hún hefur verið í Keníu, á Indlandi, í Tansaníu og er núna stödd í Kongó. Allan þennan tíma hefur hún miðlað því, ekki síst af því að þegar maður er kominn í þessa stöðu er gott að geta fengið upplýsingar beint af vettvangi, sem setur mann raunverulega inn í stöðuna og færir manni heim sanninn um það sem er dálítið fjarlægt. Maður verður ónæmur þegar ár eftir ár og áratugum saman birtast myndir í sjónvarpinu og það er það sem er svo hættulegt, að þetta verði okkur fjarlægt og renni dálítið frá. Þess vegna held ég að við þurfum einmitt að rifja það upp í þessari umræðu og muna eftir öllu hinu sem er í gangi þrátt fyrir að Úkraína taki dálítið stórt pláss í hjörtum okkar núna.

Af því að hér var líka verið að tala um viðkvæmu hópana sem eru á flótta núna, ekki bara í Úkraínu heldur víðar, þá var ég á fundi í síðustu viku með UNICEF, Rauða krossinum og félagsráðgjafa frá Tabú sem voru einmitt að fara yfir þau mál sem ráðherra rakti í andsvörum áðan og vekja mann til umhugsunar. Þar var mikil áhersla lögð á að senda inn fjármuni í gegnum þessi samtök. UNICEF talaði um að þau kæmu þeim til barna og kvenna á flótta og Tabú talaði um að styðja við fólk á staðnum því að það væri ótrúlegur fjöldi sem kæmist ekki út úr Úkraínu, vantaði lyf o.s.frv., sem þessi samtök væru þá að reyna að aðstoða með öllum hætti. Þeir sem eru aflögufærir geta lagt til í gegnum þessi samtök fjármuni sem verður sannarlega komið í góða vinnu. Eins og ráðherrann nefndi er á heimasíðu ráðuneytisins hægt að finna þessi samtök og hvernig hægt er að leggja þeim lið. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt.

Ég vildi bara árétta þetta því að mér finnst þetta mikilvægt. Mér finnst þróunarsamvinna mjög mikilvæg. Hún sýndi kannski ekki góðu hliðarnar í heimsfaraldrinum. Þá stóðu vestrænar þjóðir sig að mínu mati ekki nægjanlega vel og því miður bárust bóluefni of seint, sérstaklega til Afríkulanda. Við vitum að þar er ekki hefð fyrir bólusetningum eins og við þekkjum að er í mörgum hinna vestrænu ríkja og þá tekur lengri tíma að koma bóluefninu til fólks. Það var sorglegt að sjá að miklu magni af bóluefni var hent. Þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum að draga lærdóm af þegar næsti faraldur kemur því að það er auðvitað ekkert „ef“ heldur bara „þegar“ eins og dæmin hafa sannað.

Mig langar aðeins að ræða það þegar því er velt upp hvort rödd Íslands skipti máli í alþjóðasamvinnu. Ég er alveg sannfærð um það og mér fannst það sýna sig þegar við sátum í mannréttindaráðinu. Þótt það ekki væri langur tími skipti hann sannarlega máli. Eftir þeirri rödd sem kom héðan var tekið og þess vegna höfum við ákveðið að bjóða fram krafta okkar á ný í mannréttindaráðinu árin 2025–2027, sem ég held að sé mjög góð ákvörðun. Sama má í rauninni segja um NATO. Það er ekki að ástæðulausu að eftir því er tekið þegar forsætisráðherra okkar kemur á þann vettvang og notar þar orðfæri sem sjaldan hefur verið notað. Það er nauðsynlegt að hafa margar raddir í slíku samstarfi.

Þetta var það sem mér þótti brýnast að ræða í þessu. Ég tel að við þurfum að nýta öll þau færi sem við höfum í alþjóðlegu starfi hvar sem þau eru. Hér er líka fjallað um norðurslóðir og sem betur fer hefur verið tekin ákvörðun um að reyna að halda þeim utan allrar hernaðarumræðu, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt. Þar eru margvíslegir möguleikar og stefnan sem við höfum, sem ráðherra hefur hafið undirbúning á að hrinda í framkvæmd, gefur færi m.a. á því að efla viðskipti, sérstaklega við Grænland og Færeyjar. Við samþykktum líka á síðasta þingi nýja stefnu sem skiptir þar máli og margar tillögur eru þar undir.

Svona í almennu tali hefur ríkisstjórnin rætt talsvert mikið um loftslags-, auðlinda- og umhverfismál alls staðar þar sem við höfum verið að kynna áherslur okkar og sendiskrifstofurnar okkar líka. Það þekki ég aðeins af starfi í gegnum EFTA og ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún ræddi þau mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við kynnum þetta af því að við erum með kynslóðir sem hafa aldrei alist upp við neitt annað en að hafa aðgang að því sem EFTA veitir okkur. Ég held að mjög margir átti sig ekki á því hvaða afleiðingar það hefði ef klippt yrði á það. Við höfum rætt þetta stundum á vettvangi EFTA og hvort ástæða sé til að kynna málið fyrir almenningi og ég held að við getum gert það með margvíslegum hætti og ég held að mjög mikilvægt sé að gera það. EFTA er að færa sig, sem betur fer, í sinni textasmíð og þegar verið er að uppfæra og endurnýja samninga er verið að lagfæra þá, þar sem verið er að setja inn umhverfisvernd, vinnurétt, kynjajafnrétti o.s.frv. En auðvitað búum við það að það eru þarna lönd innan um sem hafa allt annan kúltúr og við höfum verið að reyna að eiga við og ekki kannski náð öllum markmiðum okkar í gegn sem þar eru undir, en sannarlega hluta þeirra.

Mig langaði að tala aðeins um GRÓ, þ.e. þar sem er verið að fjalla um skólasamstarf á erlendum grunni. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt og mér hefur sýnst að þessir skólar okkar fjórir, Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn, hafi allir sannað tilvist sína. Það er kannski eitt af því sem manni finnst fara dálítið lágt í umræðunni, af því að þetta er mjög merkilegt starf. GRÓ er sjálfstæð miðstöð sem starfar undir merkjum UNESCO, mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og hefur verið sérstök eining innan utanríkisráðuneytisins. Þetta eru samt skólar sem hafa starfað um áratugaskeið og verið partur af okkar alþjóðlegu þróunarsamvinnu. Hlutverkið er að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu.

Í þessu sambandi vil ég bara minna á að ég lagði fram mál um að Alþingi feli utanríkisráðherra í samvinnu við innviða- og dómsmálaráðherra að skipa starfshóp til að kanna grundvöll fyrir stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi, kosti þess og galla. Við Íslendingar höfum gríðarlega þekkingu á björgunarmálum, bæði er hún til hjá opinberum aðilum en líka félagasamtökum. Það eru kannski fáir sem búa við aðstæður og náttúru eins og okkar. Björgunarfólk hefur mikla reynslu af björgun úr sjávarháska, foráttuveðri, snjóflóði, jarðskjálfta, jöklabjörgun, erfiðum landsvæðum o.s.frv. Svo höfum við sent alþjóðlegar björgunarsveitir til hamfarasvæða í útlöndum þar sem við höfum nýtt þessa sérþekkingu, m.a. við rústabjörgun. Þar var alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem var við björgunarstörf á Haítí. Það eru komin tíu ár síðan. Það vakti athygli á alþjóðavettvangi og þar held ég að samstarfsmaður okkar, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, hafi verið í broddi fylkingar, af því að við urðum fyrst á svæðið, og tók þetta að sér. Ég held að við eigum að velta því alvarlega fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til þess að útvíkka þetta með því að hafa hér slíkan skóla til þess einmitt að nýta sérþekkingu okkar sem við getum yfirfært til annarra landa sem búa við svona óstöðugar hræringar í jörð og náttúru.