152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og þátttöku í umræðu um skýrsluna. Hv. þingmaður nefndi hér hverjir eru að taka afstöðu með Úkraínu og með vina- og bandalagsþjóðum og það að stórfyrirtæki séu að stíga upp og gera hið sama. Ég er sammála hv. þingmanni að það er gott að sjá að fyrirtæki taki stöðu í baráttu sem snýst í raun að hluta til einfaldlega um að alþjóðalög séu virt og leikreglur almennt séu virtar, vegna þess að allt sem við kostum til að verja það kerfi er þegar öllu er á botninn hvolft ódýrt í samanburði við það að horfa á slíkt kerfi hrynja eða laskast mjög verulega. En ég held líka að annar angi af þessu sé að samfélagsábyrgð sé einfaldlega að verða betri „bisness“, en ég má ekki sletta, það skiptir máli í viðskiptum, það skiptir meira og meira máli í viðskiptum að sýna samfélagsábyrgð í verki og ég held að það sé líka hluti af ákvarðanatöku þessara fyrirtækja og það er gott.

Varðandi viðveru ýmist Bandaríkjamanna eða Atlantshafsbandalagsríkja í Keflavík á öryggissvæðinu þá höfum við í mörg ár verið með þessa loftrýmisgæslu þrisvar til fjórum sinnum á ári. Það kann vel að vera að mat á því geti leitt til frekari viðveru en slík ákvörðun hefur ekki verið tekin. Ég tek undir með hv. þingmanni í umræðu hans af miklum þunga hér um netöryggismál sem er risastórt mál vegna þess að þær miklu tækniframfarir sem við höfum farið í gegnum hafa einfaldlega leitt til þess að vídd utanríkis-, varnar- og öryggismálumræðu hefur þanist út. Við höfum svo sannarlega verk að vinna hér heima í því (Forseti hringir.) en ég er sammála hv. þingmanni um að við höfum líka eitthvað fram að færa meðal vina- og bandalagsþjóða með þátttöku okkar.