152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og líka fyrir samstarfið í NATO-nefndinni, við getum rætt það við umfjöllun næstu skýrslu. Það er athyglisverð þróun að sjá að sem betur fer er algjör andstaða við þátttöku Íslands í NATO að minnka og er kannski eins og fylgi Vinstri grænna og jafnvel minna en það, sem segir mjög mikið. Ég held því að Vinstri græn, og hvet ég þau sem hér eru til þess, ættu að beita sér fyrir því að endurskoða þá sýn og þá stefnu á þeim tímum sem nú eru, alla vega hafa systurflokkar þeirra á Norðurlöndunum farið í að gera það.

Gott og vel, hv. þingmaður er ekki í þeim flokki. En hann hefur mikinn áhuga og þekkingu á varnar- og öryggismálum og af því að hann kom inn á NATO, það stendur líka í skýrslunni sem við erum að ræða, langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér — í ljósi þess að allar bandalagsþjóðirnar eru að auka við framlögin, til að mynda fjárframlögin, Danir fara upp fyrir 2% markið, Þjóðverjar loksins líka og fleiri þjóðir eru bæði að bæta í og líka að efla varnir sínar og samstöðu innan bandalagsins — að við Íslendingar getum líka lagt okkar af mörkum þar. Blessunarlega höfum við ekki her en við erum mjög öflug í borgaralegri þjónustu og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái fram á að við getum eflt þann þátt þannig að við getum aukið þátttöku okkar með enn ákveðnari og markvissari hætti en gert hefur verið nú. Ekki síst sem ákveðið „signal“ um að við séum enn fullir þátttakendur eins og við vorum strax við stofnun bandalagsins 1949, þ.e. að við séum enn (Forseti hringir.) virkir þátttakendur í því að styrkja og efla samstöðu innan sem utan bandalagsins.