152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:44]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að það eru Bandaríkin og Bretland sem, ásamt kannski Þýskalandi og Frakklandi, eru þau ríki sem verja mestu til varnarsamstarfsins á vettvangi NATO. Nú hafa undanfarnar vikur sýnt að það virðist vera vilji hjá Evrópusambandinu til að útvíkka að einhverju leyti hlutverk sitt þegar kemur að varnarmálum. Þessar vopnasendingar til Úkraínu eru t.d. ansi skýrt dæmi um það. Þetta er eitthvað sem ég held að okkur hefði ekkert endilega dottið í hug fyrir örfáum mánuðum. Þegar kemur að glímunni við óefnislegar öryggisógnir, t.d. falsfréttir, upplýsingaóreiðu og netárásir, er Evrópusambandið líka að taka virkari þátt en áður. Þessar efnahagslegu þvingunaraðgerðir — auðvitað er það á vissan hátt að einhverju leyti varnar- og öryggisstefna sem þarna er verið að reka. Það er Evrópusambandið sem stendur að henni, einmitt til að stuðla að friði og reyna að bregðast við þessari gríðarlegu ógn við friðinn með skilvirkum en um leið friðsamlegum hætti.

Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan. Ég held að þessi sýn utanríkisráðherra á Evrópusambandið og framtíð þess, að það sé ekkert endilega að taka að sér aukið hlutverk þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, sé í raun sýn sem stangast svolítið á við það sem flestir af bestu leiðtogum Evrópusambandsríkjanna eru einmitt að kalla eftir núna. Ég tek auðvitað undir þau orð hæstv. ráðherra að nú þurfi Evrópusambandið aldeilis að standa sig í stykkinu.