152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður og þingmenn Viðreisnar hafa verið að tala um að þeir vilji ganga í Evrópusambandið til að fá viðskiptafrelsi. Það er rangt, það gengur ekki. Þú afnemur viðskiptafrelsið. Hv. þingmaður er núna hættur að nota þessi rök, þessi viðskiptafrelsisrök, enda standast þau ekki nokkra einustu skoðun, þannig að það er gott. Hann vill hins vegar ekki að fara á dýptina í umræðunni. Ég vil fara á dýptina og ég vil ræða alla þætti. Því meira sem ég fæ að ræða þetta, þeim mun betra. Mér finnst alveg einstaklega skemmtilegt að taka þessa umræðu. Að halda því fram að Evrópusambandið hafi einhvern veginn tryggt frið í Evrópu — NATO gerði það. Og þau lönd sem eru fyrir utan Evrópusambandið í Vestur-Evrópu, segjum bara EFTA-ríkin, eru ekki að skapa neinn ófrið í álfunni. Samt eru þau ekki í Evrópusambandinu. Það er bara fullkominn misskilningur ef einhver heldur slíku fram. En við eigum að fara á dýptina og við skulum svo sannarlega fara á dýptina þegar kemur að evrunni, gerum það. (SGuðm: Tala um vextina.) Tölum um vextina. Þeir eru mismunandi eftir evruríkjunum. En förum líka í það að þau ríki … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður talaði ekki aðeins of lengi heldur getur hann ekki hlustað á það sem hér er sagt, en hann kemst ekki hjá því. Ef þú ert með evru á Íslandi þá þýðir það að þegar efnahagsleg áföll verða, og það eru alltaf sveiflur í öllum ríkjum, verður atvinnuleysi. Það þýðir atvinnuleysi. Ef hv. þingmenn ætla að tala fyrir evrunni verða þeir líka að segja frá því. Við getum tekið dæmi sem er ekki fjarri í sögunni sem er þegar fjárhagshrunið varð. Ef við hefðum verið með evru hefði orðið enn meira atvinnuleysi hér, miklu meira atvinnuleysi, eins og varð í þeim ríkjum (Gripið fram í.) sem fóru hvað verst út úr því. Hv. þingmaður, (Gripið fram í.) eins og aðrir … (Gripið fram í.) Þetta er óþægilegt en það verður samt sagt. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður verður að horfa í augun á fólki ef hann ætlar að tala fyrir evru og segja: Þið verðið bara að þola það (Forseti hringir.) að missa vinnuna þegar sveiflur verða í atvinnulífinu niður á við. Sem verða alltaf (Forseti hringir.) og enginn stjórnmálamaður getur lofað því um alla framtíð að það muni ekki gerast.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að nota ræðupúlt til að svara og koma máli sínu að.)