152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, enda hafa Norðmenn og Þjóðverjar sagt að þeir ætli að fylgjast með en hafa líka sagt það í engu breyta afstöðu sinni. Þar með eru þeir að segja að þeir séu sammála afstöðu okkar. Þeir hafa ekki sagst ætla að vera meðlimir heldur fylgjast með og mæta á viðburð því að mér skilst að það sé í raun ekkert til sem heitir áheyrnarmeðlimir, að þú sért annaðhvort meðlimur eða, eins og þau hafa fallist á, að mér skilst, að þú mætir á þennan viðburð sem fram undan er. Það er alveg rétt, við erum enn með kjarnorkuvopn og í því felst mikil ógn fyrir heiminn allan. Og það er hægt að spyrja hversu miklum árangri NPT hafi skilað. En það má þá líka spyrja: Hvaða árangri ætla þjóðir sem eru aðilar að þessu að ná ef ríkin sem eru með kjarnavopnin eru ekki einu sinni þátttakendur í því? Ég myndi alla vega ekki treysta mér til að standa með slíku og ekki telja það ábyrgt að fara í eitthvert slíkt ferðalag án þess að hafa ríkin sem búa yfir kjarnorkuvopnum, og eru ekki einu sinni til viðtals um þennan félagsskap, að stíga einhver skref í þá átt. Við höfum hér eftir sem hingað til talað fyrir því sjónarmiði að stefna skuli að kjarnorkuvopnalausri veröld og að kjarnavopnum sé eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Þar með talið höfum við talað á þann veg innan Sameinuðu þjóðanna og innan Atlantshafsbandalagsins og við höfum stutt margvíslegar ályktanir sem lúta að þessu markmiði. En að fara í þennan leiðangur án gagnkvæmni og án þess að hafa ríkin með, ég myndi ekki treysta mér til að styðja slíkt.