152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

NATO-þingið 2021.

429. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2021.

Á vettvangi NATO-þingsins árið 2021 bar hæst umræðu um það hvernig takast ætti á við áframhaldandi landfræðilegar og hugmyndafræðilegar áskoranir frá Rússlandi. Þingmenn lýstu yfir áhyggjum af hernaðaruppbyggingu Rússa og veru tugþúsunda rússneskra hermanna við landamæri Úkraínu þrátt fyrir fullyrðingar frá Moskvu um að herliðið yrði kallað heim. Enn fremur jók fangelsun Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðu Rússlands, og brottvísun Rússa á vestrænum stjórnarerindrekum frá Rússlandi á spennuna í alþjóðasamskiptum. Þingmenn lýstu yfir áhyggjum af vaxandi kúgun stjórnvalda og kölluðu eftir áframhaldandi refsiaðgerðum nema stjórnvöld í Moskvu endurskoðuðu stefnu sína og létu af mannréttindabrotum og sniðgöngu á alþjóðaskuldbindingum.

Öryggisáskoranir á norðurslóðum fengu aukna athygli á árinu og afgreiddi varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins skýrslu um málið. Þar kemur fram að NATO leggi aukna áherslu á norðurslóðir og hafi aukið sýnileika sinn og fjölgað heræfingum á svæðinu. Íslandsdeild tók þátt í umræðum um málið og lagði áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, mikils áhuga Kína og aukinnar hernaðarviðveru Rússa. Þá hafi aukið aðgengi að norðurslóðum ýtt undir áhuga ríkja utan norðurslóða á svæðinu. Í umræðum var áhersla lögð á mikilvægi hlutverks NATO og þörf fyrir stefnu bandalagsins á norðurslóðum í ljósi þróunar alþjóðastjórnmála og sameiginlegs markmiðs aðildarríkjanna um að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði.

Jafnframt varð mönnum tíðrætt um hvernig styrkja mætti pólitískt samstarf innan Atlantshafsbandalagsins undir merkjum NATO 2030. Samþykkti þingið í tengslum við það verkefni ályktun um stuðning við skuldbindingar NATO um öflugar varnir til ársins 2030. Enn fremur hvatti þingið NATO til þess að uppfæra grunnstefnu sína í ljósi breyttra aðstæðna, þar sem rík áhersla væri lögð á grunngildi lýðræðisins og stofnana þess. Með uppfærðri stefnu væri hægt að bregðast betur við nýjum áskorunum, þar á meðal vaxandi áhrifum Kína og umsvifum Rússlands, auk þess sem í stefnunni fælist tækifæri til að styrkja tengsl bandalagsins og Evrópusambandsins.

Einnig samþykkti NATO-þingið á árinu ályktun þar sem NATO er hvatt til þess að koma á fót miðstöð um lýðræðislegt viðnámsþol innan sambandsins, sem geti styrkt NATO og lýðræðislegar undirstöður bandalagsins. Mikilvægi miðstöðvarinnar á tímum vaxandi fjölþættra öryggisógna í heiminum væri ótvírætt en markmið hennar væri að leggja aukna áherslu á og vernda sameiginleg lýðræðisleg gildi bandalagsins.

Heimsfaraldur kórónuveiru setti mark sitt á starf NATO-þingsins á árinu og fóru flestir fundir og ráðstefnur fram á fjarfundum. Enn fremur var NATO-þingið vettvangur til skoðanaskipta um heimsfaraldurinn og þau áhrif sem hann hafði á málefnasvið þingsins. Rætt var um efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldurs sem eins af mikilvægustu óvissuþáttum komandi ára. Þá þótti ljóst að opinber fjármál yrðu ein helsta áskorun aðildarríkjanna og mikilvægt væri að standa vörð um framlög til öryggis- og varnarmála. Jafnframt fór fram umræða um tækniframfarir og efnavopnahryðjuverk í kjölfar heimsfaraldurs en hann hefur sýnt fram á veikleika á heimsvísu að því er varðar líffræðilegar ógnir og árásir.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2021 má nefna brotthvarf herliðs NATO frá Afganistan, efnahagslegar og pólitískar áskoranir í Hvíta-Rússlandi og umræður um kjarnorkuáætlun Írans og samskipti landsins við nágrannaríki. Einnig var rætt um hernaðaruppbyggingu Kína og áhrif hennar á aðildarríki NATO, alþjóðlegt vopnaeftirlit og hlutverk NATO varðandi öryggismál í geimnum. Enn fremur gaf NATO-þingið út fimmtán málefnaskýrslur á árinu sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins, www.nato-pa.int/.

Almennt um NATO-þingið.

NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi.

Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst fylgi við þá skoðun að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við NATO og til stuðnings bandalaginu. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.

Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.

Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE, á ensku Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Á NATO-þinginu eiga sæti 269 þingmenn frá aðildarríkjunum 30. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Alls á 91 þingmaður frá 11 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.

Þá að Íslandsdeild NATO-þingsins á síðasta starfsári.

Fram að alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Njáll Trausti Friðbertsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður K. Gunnarsdóttir varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.

Njáll Trausti Friðbertsson lét af störfum sem varaformaður vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins eftir þrjú ár í embætti og var kjörinn skýrsluhöfundur nefndarinnar til næstu tveggja ára.

Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Njáll Trausti Friðbertsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson varaformaður, þingflokki Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokksins.

Að fundum NATO-þingsins á síðasta ári.

Á venjubundnu ári kemur NATO-þingið saman til fundar tvisvar sinnum á ári. Á svokölluðum febrúarfundi heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu. Þessir tveir fundir eru annars vegar vorfundurinn í maí og ársfundur í október eða nóvember. Síðan kemur febrúarfundurinn líka og heldur stjórnarnefndin þá fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu og jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.

Á árinu fóru nefndastörf að mestu fram á fjarfundum vegna ferðatakmarkana af völdum faraldursins. Að auki sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsa fjarfundi sem skipulagðir voru á árinu um málefni NATO-þingsins.

Árið 2021 tók Íslandsdeild þátt í vorfundi í maí. Einnig tók formaður þátt í febrúarfundi og fundi stjórnarnefndar í mars og ársfundi í október.

Þetta er svona stutta útgáfan af skýrslunni. Ég hvet þingmenn og aðra til að lesa og kynna sér málefnin og það má líka finna ýmislegt efni og skýrslur í tengslum við starf NATO-þingsins og þessar 15 skýrslur er hægt að finna á vef NATO-þingsins, sem voru samþykktar á síðasta ári.

Undir skýrsluna rita Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Andrés Ingi Jónsson varaformaður og Stefán Vagn Stefánsson.

Einnig má finna frásagnir frá fundum, umtalsvert nákvæmar frásagnir, á vefsíðu Alþingis, undir NATO-þinginu, og síðan aftur ályktanir sem voru samþykktar í þinginu á síðasta ári sem voru á síðasta ári sjö talsins og eru líka á íslensku undir NATO-þinginu á vef Alþingis. Af nógu er að taka í þessu starfi en ég ætla svo sem ekkert að fara — við erum búin að taka mikla umræðu um þessi mál í dag sem tengjast NATO, frú forseti, þannig að ég held að það sé komið nóg af þeirri umræðu af minni hálfu í dag.