152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

ÖSE-þingið 2021.

420. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Forseti. Ég átti nú ekki von á því að skýrsla NATO-þingsins yrði bara flutt hér en ekki tekin til umræðu en það er líklega vegna þess að við höfum auðvitað verið að ræða þessi risastóru mál í alþjóðasamhenginu í allan dag. En ég ætla hér að stikla á stóru í skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins. Mér finnst við hæfi á þessum tímapunkti að rifja aðeins upp hvað ÖSE er. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu eða ÖSE starfar á grundvelli Helsinki-lokagerðarinnar eða Helsinki Final Act, eins og það heitir á ensku, frá árinu 1975. Með Helsinki-lokagerðinni skuldbundu aðildarríkin sig til að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Helsinki-lokagerðin er hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli í lagalegum skilningi þar sem hún er ekki staðfest af lögþingum í löndum þeirra þjóðhöfðingja sem undir hana rituðu. Það gerir samstarfið náttúrlega að ákveðnu leyti sérstakt en það er alveg greinilegt að okkur hefur því miður ekki tekist að uppfylla þau skilyrði eða skuldbindingar sem fylgdu þessum sáttmála á sínum tíma. En ÖSE er sem sagt ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað það varðar að ekki er um að ræða lagalega skyldu á viðkomandi ríkjum en væri það kannski betur.

Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Það var svo árið 1990 að svokallaður Parísarsáttmáli var samþykktur, annar en sá sem við vísum kannski oftar til í daglegu tali, en það var samkomulag um að innan ÖSE yrði ÖSE-þingið starfandi þar sem 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu myndu skipa sína fulltrúa. Þetta eru 323 fulltrúar og þar af á Alþingi þrjá og þess vegna erum við þrjú sem skrifum undir þessa skýrslu. Það er ég, sem formaður Íslandsdeildar, Helga Vala Helgadóttir, sem varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson. En ég var líka í Íslandsdeild ÖSE-þingsins á síðasta kjörtímabili. Þá var Gunnar Bragi Sveinsson formaður og með okkur var Guðmundur Andri Thorsson.

Ég ætla að stikla á stóru en það er sem sagt hefðbundið hjá ÖSE-þinginu að það séu þrír fundir á ári og ÖSE, sem alþjóðleg og stór stofnun, átti auðvitað í ákveðnum erfiðleikum með að aðlagast Covid. Í reglum þingsins var mjög skýrt kveðið á um að greiða þyrfti atkvæði um mál í eigin persónu en það var ekki hægt eðli málsins samkvæmt á tímum Covid. Ég vil nú meina að vel hafi tekist til og ég held að það hafi jafnvel verið miklu meira að gerast á vettvangi ÖSE á tímum Covid vegna þess að haldnir voru fleiri fundir og þá um sértækari málefni. Þá var það gert í gegnum fjarfundabúnað. Mér finnst það sýna sig að alþjóðastarf getur vel farið fram í gegnum fjarfundabúnað. Ég ætla samt að segja að mér finnst slíkt alls ekki geta komið í staðinn fyrir að hitta fólk í eigin persónu en starfið getur verið enn öflugra og klárlega er hægt að spara eitthvað, bæði í fjármunum en ekki síður í kolefnisspori, þegar hægt er að notast við fjarfundi þegar hinu verður ekki við komið.

Það hefur líka verið töluvert gert af því í ÖSE-þinginu að halda fundi sem eru þá með þeim hætti að formenn landsdeildanna, eða formenn stjórnarnefndar eins og það heitir, mæta til fundar en aðrir fulltrúar eru á fjarfundi, svona hybrid-fundi, til að hafa einhver takmörk á stærð fundanna á þeim miklu takmörkunartímum sem verið hafa á síðustu árum. Ég var formaður landsdeildarinnar á sumarfundinum okkar þar sem Margrét Setterfield, sænskur þingmaður, var kosin forseti og tilnefndi hún mig í kjölfarið sem sérstakan talsmann norðurslóðamála. Ég hef því gegnt því embætti í nokkra mánuði en ÖSE-þingið starfar þannig að jafnframt því að vera með þrjár starfandi fastanefndir er líka töluvert um talsmenn ákveðinna málaflokka sem þá flytja skýrslur og þeirra hlutverk er að vekja athygli á sínum málum og halda utan um umræður á vettvangi ÖSE um þau. Það var þar af leiðandi ánægjulegt að fá það verkefni að halda utan um umræður um norðurslóðamál innan ÖSE. Það er málaflokkur sem hefur ekki fengið mikla umræðu hingað til. Þingið hefur kannski meira verið að horfa á loftslagsmálin, mannréttindamálin og fókusinn hefur kannski verið meira í Austur-Evrópu, Mið-Asíu og víðar, kannski ekki alveg uppi á norðurskautinu. Ég hafði á fyrri ársfundum komið inn með breytingar á orðalagi í ályktunum okkar um umhverfismál þar sem sérstaklega hafði verið minnst á norðurslóðamál. Það verður enn meira krefjandi að velta fyrir sér umræðum um norðurslóðamál á vettvangi ÖSE á næstunni þar sem við horfum upp á það sem er að gerast í heiminum. Rússar eru jú eitt af þeim ríkjum sem hafa landamæri að norðurslóðum og tilheyra Norðurskautsráðinu. Ég var að vonast eftir því að geta átt gott samstarf við fulltrúa í öllum norðurskautsríkjunum í vinnu minni, hef nú þegar haldið einn fjarfund og fékk fulltrúa allra norðurskautslandanna á hann, en ekki tóku allir til máls og Rússinn gerði það ekki. Þetta var tveimur til þremur vikum fyrir innrásina.

Eins og ég sagði hér áðan þá er því miður þannig komið að markmið ÖSE hafa ekki náðst og því var mjög sérstakt að vera á síðasta ÖSE-fundinum úti í Vín þar sem Rússland, sem er auðvitað hluti af ÖSE, hafði þá um nóttina ráðist af fullum krafti inn í Úkraínu, sem er líka hluti af ÖSE. Rússnesku fulltrúarnir voru á fjarfundi, Úkraínumaðurinn var á staðnum og lýsti þessum hörmungum og þeirri miklu seiglu sem byggi í úkraínsku þjóðinni og hvernig hann og samþingmenn hans myndu berjast og verið væri að vopnvæða þingmenn. Það var átakanlegt á að hlusta en það er auðvitað svo að maður hefur fundið þessa spennu stigmagnast og á vettvangi ÖSE hefur komið til mjög harðra orðaskipta varðandi stöðuna á Krímskaga og innrásina þar á sínum tíma, innrásina í Georgíu, og svo sem Nagornó-Karabak og fleiri svæði sem hafa verið undir í þeirri umræðu.

Á ársfundinum okkar síðasta sumar, sem var haldinn með mjög sérstökum hætti, mætti ég sem fulltrúi Íslandsdeildar en aðrir voru viðstaddir í gegnum fjarfundabúnað. Þá var svo komið að ekki var hægt að greiða atkvæði um hefðbundnar ályktanir vegna þess að reglurnar gera ráð fyrir því að það sé gert með handauppréttingu en þó var búið að koma breytingum áleiðis þannig að hægt var að kjósa forseta þingsins og hægt var að bera fram brýn málefni. Þar voru brýn málefni rædd og ályktanir samþykktar. Sú fyrsta fjallaði um aukna kynþáttafordóma á ÖSE-svæðinu, önnur um aðgerðir hvítrússneskra stjórnvalda gagnvart stjórnarandstöðu og sú þriðja um uppbyggingu herafla Rússa við landamæri Úkraínu og á hernumdu svæðunum. Þetta var sem sagt í júlí á síðasta ári, í byrjun júlí 2021. Rússar og Hvít-Rússar mótmæltu ályktunum harðlega. Ég ætla að grípa aðeins niður — ég er ekkert að lesa þessa skýrslu, hún liggur fyrir og þingmenn og aðrir geta kynnt sér hana. En svona aðeins til að setja okkur inn í það hvernig orðræða þessara aðila var á þessum fundi þá ítrekuðu Rússar t.d. þá afstöðu sína að Krímskagi væri bara hluti af Rússlandi og maður hefur margoft heyrt hvernig þeir standa vörð um það og hvernig þeir lýsa ástandinu á Krímskaga með allt öðrum hætti en Úkraínumennirnir sem sitja sama fund. Maður veltir því stundum fyrir sér hvort aðilar séu að ræða sama hlutinn þegar þeir eru að tala um þessi mál því að sjónarmiðin eru svo ofboðslega ólík. Það er bara engin heil brú þarna á milli. En þeir ítrekuðu að Krímskagi væri hluti af Rússlandi og flutningur herafla innan Rússlands væri þeirra innanríkismál og kæmi okkur þar af leiðandi ekkert við. Rússar hvöttu til þess að ÖSE-þingið yrði vettvangur samræðna og samstöðu frekar en sundrungar.

Formaður hvítrússnesku landsdeildarinnar mótmælti ferðabanni þarlendra stjórnmálamanna sem sett var á af hálfu Evrópusambandsins í kjölfar þvingaðrar lendingar farþegaflugvélar í Minsk í maí það ár. Fulltrúinn sagði óásættanlegt að ræða viðkvæm pólitísk mál í einu aðildarríki þegar fulltrúar ríkisins hefðu ekki tök á að taka þátt í umræðunni nema með fjarfundabúnaði. Hann sagði: Skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi hafa breyst í götulýðræði og uppþot í Hvíta-Rússlandi og benti á að hollensk stjórnvöld hefðu beitt mótmælendur harðræði í fjölmennum mótmælum gegn samgöngubanni í tengslum við útbreiðslu Covid-19 þar í landi í byrjun árs. Það er óhætt að segja að þessi skilaboð vöktu reiði hollenskra fulltrúa en líka annarra fulltrúa ÖSE-þingsins — nú ætla ég ekki að verja það hvernig fór með einhver mótmæli í Hollandi en að bera þetta tvennt saman og leggja það að jöfnu stenst ekki skoðun. Eftir að Lúkasjenkó hreinlega stal forsetastólnum í kosningunum 2020 brutust út mjög mikil mótmæli í Hvíta-Rússlandi og sjaldan hafa þau verið meiri. Það eru þúsundir manna í fangelsi í Hvíta-Rússlandi, fréttamenn og stjórnarandstæðingar, sem hafa fæstir fengið einhvers konar réttarhöld. Jafnvel þó að réttarhöld hafi verið haldin hafa þau verið lokuð og ekki í samræmi við allt það sem við teljum eðlilegt og er hluti af alþjóðalögum. Annars vegar töluðu fulltrúar frá Rússlandi um það sem þeir telja innanríkismál Rússlands, þegar verið er að ræða um Krímskaga, og hins vegar fulltrúar frá Hvíta-Rússlandi, þar sem forsetinn hreinlega fyrirskipaði farþegaþotu sem var að fljúga yfir lofthelgina að snúa við og lenda í Minsk. Tveir farþegar þeirrar farþegaþotu voru dregnir út og fangelsaðir og að því er ég best veit sitja þeir enn í fangelsi. Svona er veruleikinn í þessum löndum og þetta er okkur svo fjarri en birtist okkur með áþreifanlegum hætti í því sem er að gerast í dag og undirstrikar hversu mikilvægt er að halda alltaf á lofti mannréttindum og alþjóðalögum.

Haldin var góð ræða af framsögumanni í stjórnmála- og öryggismálanefndinni. Hann er Lithái. Eins og ég hef sagt hér áður í dag þá er áhugavert að hlusta á félaga okkar í þessum þremur litlu Baltic-löndum þegar þeir tala um öryggismálin. Ég ítreka aftur: Þetta var í júlí á síðasta ári og hann var að hvetja okkur til að takast á við þá óvæntu áskorun sem þá var heimsfaraldurinn en jafnframt minna okkur á öryggismálin. Hann harmaði það að öryggi á ÖSE-svæðinu hefði verið ógnað með hernaðartilburðum, hernámi, innlimun landsvæða og mannréttindabrotum. Það hefði ekki tekist að leysa átökin í Úkraínu, Georgíu, Nagornó-Karabak eða Transnistriu, auk þess sem fjölþáttaógnir og netárásir færðust sífellt í aukana. Alþjóðleg samvinna væri í uppnámi og þingmenn þyrftu að axla ábyrgð sína og standa vörð um gildi ÖSE.

Þegar maður les þetta þá er þetta svo sannarlega góð áminning. Á sama tíma flettum við hér í símanum okkar og sjáum að 71 barn hefur verið drepið í árás Rússa á Úkraínu. Þar af leiðandi er alveg ljóst að þau fallegu og mikilvægu markmið sem sett voru fram með ÖSE og ÖSE-þinginu og ÖSE-þingmenn hafa alla jafna reynt að halda á lofti — því miður erum við bara mjög langt frá þessum markmiðum. En eftir að hafa verið svona neikvæð ætla ég samt sem áður að segja að ég hef ekki trú á því að það þýði neitt annað en að halda áfram. Ég vil ítreka að ég sem fulltrúi á ÖSE-þinginu tek til máls og ræði um mannréttindi, ræði um mikilvægi alþjóðalaga. Ég hvet okkur öll þingmenn, þegar við erum á erlendum vettvangi, til að nota ávallt tækifærið og taka til máls og hnykkja á því sem skiptir öllu máli til að möguleiki sé að halda uppi friði, þ.e. að alþjóðalög séu virt og mannréttindi og jafnrétti séu ávallt virt.