152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

Alþjóðaþingmannasambandið 2021.

430. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Á þskj. 613 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári. Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2021 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru, en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Aðild að IPU, sem er erlend skammstöfun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, áttu í lok árs 2021 178 þing en aukaaðild að sambandinu þrettán svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Sambandið heldur tvö þing á ári og auk þess heldur það alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2021 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði en þau tengjast öll markmiðum sambandsins sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Á árinu 2021 bar hæst umræður um þær áskoranir sem heimsfaraldur kórónuveiru skapaði þjóðþingum heims. Á haustþingi IPU var samþykkt ályktun um hvernig nýta megi alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við Covid-19. Þar var lögð áhersla á nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið tryggi tímanlegan, sanngjarnan og hagkvæman aðgang að öruggum og viðurkenndum bóluefnum. Þá var áréttað að umfangsmikil bólusetning gegn Covid-19 stuðli að almannaheill á heimsvísu. Í umræðum var enn fremur bent á skýran mun milli Afríku og umheimsins í alþjóðlegri dreifingu bóluefna. Einnig var á árinu haldinn fundur þingkvenna þar sem rætt um áhrif Covid-19 á jafnréttismál og hvernig tryggja megi jafnrétti kynjanna á tímum heimsfaraldurs. Enn fremur gaf IPU út leiðbeiningar um hvernig þjóðþing geta tryggt að afskipti stjórnvalda á tímum Covid-19 taki mið af jafnréttissjónarmiðum og brjóti ekki gegn mannréttindum. Jafnframt voru útbúin tveggja mínútna myndbönd þar sem kynnt var hvernig þjóðþing og þingmenn hefðu brugðist við faraldrinum á heimsvísu. Þá fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og voru þingmenn sammála um að Covid-19 hafi sýnt fram á að IPU hefði hæfni og getu til að aðlagast nýjum áskorunum og óvæntum aðstæðum. Áskoranir samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum voru jafnframt í brennidepli og samþykkti IPU yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin fram. Forseti IPU sagði í umræðu um yfirlýsinguna að undanfarin tvö ár hefðu einkennst af hættulegri afturför varðandi sameiginlegar skuldbindingar alþjóðasamfélagsins gagnvart mannréttindum og lýðræði. Faraldur valdarána og beinna árása á stofnanir þjóðþinga hafi átt sér stað, m.a. í Súdan, Mjanmar og Afganistan. Alþjóðasamfélagið þurfi að standa saman og krefjast þess að horft verði til stjórnskipulegra reglna. Þá lagði hann áherslu á mikilvægt starf IPU við að verja lýðræðið og aðstoða aðildarríki sambandsins við að virða lýðræðislega stjórnhætti.

Á haustþingi IPU var samþykkt ný stefna fyrir árin 2022–2026. Stefnan er aðgerðamiðuð og sniðin að því að sambandið nái að vinna að markmiðum sínum og standast þær alþjóðlegu áskoranir sem fram undan eru. Sérstök áhersla er lögð á lýðræði, mannréttindi, loftslagsbreytingar og stuðning við innleiðingu Parísarsamkomulagsins. Jafnframt hefur IPU í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina eða WHO og Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir fjölmörgum fjarfundum um heimsfaraldurinn og áhrif hans á ýmsa málaflokka. Þar hafa þingmenn og sérfræðingar haft vettvang til skoðanaskipta um áhrif hans, aðgerðir og þróun. Þá hefur heimsfaraldurinn, með sínum ströngu ferðatakmörkunum, opnað á möguleika þingmanna til að nýta sér fjarfundi í auknum mæli til framtíðar. Enn fremur voru þingmenn aðildarríkjanna sammála um að baráttan við faraldurinn hefði varpað ljósi á mikilvægi enn frekari samstöðu og alþjóðlegs samstarfs.

Forseti. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum IPU árið 2021 má nefna stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar og aðlögun. Þá ályktaði sambandið um samþættingu stafrænnar tækni að hringrásarhagkerfinu svo ná megi þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna á internetinu. Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2021 má nefna svæðisbundnar málstofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áhrif heimsfaraldurs Covid-19 á innleiðingu þeirra. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu var m.a. gefin út handbók í samstarfi við UN Women um kynbundna lagasetningu og skýrsla um kynferðislega áreitni og ofbeldi gegn konum í þjóðþingum Afríku.

Frú forseti. Ég vil taka fram að mikil áhersla er lögð á mannréttinda- og jafnréttismál í starfi IPU. Í því samhengi vil ég nefna sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem gegnir veigamiklu hlutverki innan sambandsins og gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráðið fjölmargar ályktanir um mannréttindabrot gegn þingmönnum. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsfall. Þá vil ég nefna þá miklu áherslu sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur á að styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnum, fundum og útgáfu handbóka og skýrslna svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti. Jafnframt hefur árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum heims vakið athygli og er iðulega vitnað til hennar í umræðum og í fjölmiðlum. Þá er norrænt samstarf mjög sterkt innan IPU og eru norrænu landsdeildirnar almennt mjög virkar í starfi sambandsins. Norrænu landsdeildirnar halda samráðsfund til undirbúnings fyrir hvert IPU-þing og fer Íslandsdeild með formennsku í hópnum nú í ár, 2022. Það er ljóst að fjölbreytt verkefni bíða IPU á árinu 2022 og ber þar helst að nefna umræðu um áskoranir samtímans fyrir lýðræði og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Eins og áður sagði er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. Ég vil að lokum þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi og læt að svo mæltu lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar IPU fyrir árið 2021.