Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta hefur breyst í umræðu um góða hagstjórn þá verð ég að koma upp og vekja athygli á því að það var tekin meðvituð ákvörðun hjá þessari ríkisstjórn að sækja ekki fjármagn þar sem þenslan er mest í dag. Það var 52% aukning í fjármagnstekjum í fyrra, sú mesta sem hefur orðið frá árinu 2007. Þetta rennur til tekjuhæstu 10% í landinu. Þetta er sá hópur sem sá tvöfalda aukningu, ef ekki þrefalda kaupmáttaraukningu á við allar aðrar tíundir í landinu. Þarna liggur þenslan. Að sama skapi erum við að sjá methækkanir á afurðaverði í sjávarútvegi. Við erum að sjá methagnað hjá fjármálafyrirtækjum. Og hér kemur hæstv. fjármálaráðherra upp og talar um ábyrgð, aðhald og þenslu, sami ráðherra og hefur ítrekað mælt fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpi sem bæta bara í útgjöld en mæta ekki með eina einustu tekjuaukningartillögu þaðan sem þenslan kemur í samfélaginu. Þetta eru ótæk rök. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)