Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:41]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi hérna áðan að Seðlabankinn væri búinn að hækka vexti tíu sinnum og notaði það sem rök fyrir krónutöluhækkunum upp á 7,7% (Gripið fram í.) eða skattahækkunum. Ég sé bara ekki þetta samhengi. Ég sé ekki að það þurfi. Nákvæmlega þessar vaxtahækkanir hafa aukið á byrðar heimilanna svo svakalega að þau standa varla undir sér lengur mörg hver, með hækkanir upp á hátt í annað hundruð þúsund á mánuði. Og svo á bara að bæta við. Þetta er akkúrat versti tíminn út af þessu til þess að fara í þessar krónutöluhækkanir akkúrat núna. Þannig að ég skil ekki þessa forgangsröðun. Það er líka ljóst að það er ekki einu sinni búið að reikna það út í fjármálaráðuneytinu, samkvæmt svari sem ég fékk við fyrirspurn um það, hvað þessar hækkanir, flötu krónutöluhækkanir, kosta heimili landsins. Það hefur ekkert verið reiknað út. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ég gat ekki fengið svar við því þegar ég sendi inn svar úr efnahags- og viðskiptanefnd og við fengum ekki svar við því.