Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, eins og fleiri segja þegar þeir koma hér upp og tala, en ég get ekki orða bundist. Fyrir ári var ég hér að hlusta á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að vara við því að langtímaatvinnuleysi væri stærsta ógnin. Hvar erum við stödd í dag þegar kemur að atvinnuleysi? Við erum með sögulega gott atvinnuástand. Við erum með betri afkomu en spáð var. Við erum með alþjóðlega sterka stöðu þegar kemur að skuldahlutfalli. Nú erum við að takast á við aðstæður vegna þess að heimsfaraldur truflaði aðfangakeðjur, vegna þess að það er stríð í Evrópu sem hefur sömuleiðis haft áhrif á verðbólgu, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar annars staðar, með skynsamlegum og ábyrgum hætti, rétt eins og efnahagsaðgerðir okkar vegna Covid voru skynsamlegar og ábyrgar og það sýnir sig í stöðunni. Allt það sem varað var við og ég hlustaði grannt eftir, því að hér er sagt að ekki sé hlustað, hefur einfaldlega ekki gengið eftir. Ég vil bara minna á þetta hér um leið og ég nota tækifærið og lýsi stuðningi við þetta frumvarp og minni á sömuleiðis að Ísland stendur vel í öllum alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stöðu efnahagsmála.