Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[14:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér erum við að leggja til að setja einhver mörk á þær endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem koma til þeirra sem eru að kaupa sér rafmagns- og vetnisbifreiðar, til þess að vera ekki að endurgreiða virðisaukaskatt til fólks sem er í raun bara að bæta í leikfangasafnið sitt í bílskúrnum, að kaupa sér sína þriðju eða fjórðu bifreið. Það er alger óþarfi að endurgreiða fólki virðisaukaskattinn fyrir fjórða bílinn sinn, fimmta bílinn sinn, sjötta bílinn sinn — það eru engin takmörk á því í núverandi regluverki. Það þarf ekki að vera opinn krani til að Jón úti í bæ geti keypt sér Teslu til viðbótar við Hummerinn sinn og fleira. Við erum að leggja til sanngjarnt þrepaskipt kerfi þar sem ef viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda á einn bíl fyrir fái þau hálfa endurgreiðslu. Eigi þau tvær bifreiðar eða fleiri fái þau enga. Þetta er líka liður í að fækka bílum í umferð, sem við vitum að við þurfum að gera. En ég sé að þetta hefur ekki hlotið áheyrn. Við verðum að gera betur ef við ætlum að standa við okkar loftslagsmarkmið, miklu betur en við erum að gera núna. En það að skrifa upp á óútfylltan tékka er ekki endilega rétta leiðin.