Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[21:11]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, fyrir framsöguna og jafnframt fyrir umfjöllun um kolefnisgjöld og hlutverk þeirra í þessu samhengi. Það er gott að við deilum sýn hvað þetta mikilvæga verkfæri varðar. Mig langar þó til að impra aðeins á síðari punktinum mínum sem er: Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar ívilnandi heimildum er beitt að við vitum ekki hver kostnaður samfélagsins er af samdrættinum sem það gæti haft í för með sér, einfaldlega vegna þess að greiðslan er í formi annarra hluta heldur en peninga og í öðru lagi, eins og fram kom í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, vegna þess að það eru ákveðin markmið með viðbótarákvæðum laga um stjórn fiskveiða og annarri löggjöf sem snýr að fiskveiðum sem er ætlað að ná öðrum markmiðum en beinlínis einungis að stýra fiskveiðum, þar með talið þeim samfélagsmarkmiðum sem hv. þingmaður nefndi í sínum áhyggjum?