Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

Seðlabanki Íslands.

541. mál
[21:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Aðdragandi þessa máls er sá að við sömdum þetta frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem eru hins vegar tiltölulega ný eða frá árinu 2019 og lutu að sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins og tóku gildi í ársbyrjun 2020 en þegar þau lög voru samþykkt árið 2019 var eftirlit með fjármálastarfsemi sem kunnugt er flutt til Seðlabanka Íslands með sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins. Töluverðar breytingar voru gerðar á stjórnkerfi bankans og settar á laggirnar tvær nýjar lögskipaðar fastanefndir, þ.e. fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, til viðbótar við peningastefnunefndina sem hefur tekið ákvarðanir í peningamálum frá árinu 2009.

En aðdragandi þessa máls er sá að í meðförum Alþingis var bætt við það frumvarp sem varð að lögum bráðabirgðaákvæði sem fól það í sér að fyrir lok árs 2021 skyldi ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna. Það skyldi gert m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Það sem gerðist svo í þessu máli er að þann 9. júní 2021 skipaði ég nefnd sérfræðinga til að annast úttekt í samræmi við þessi ákvæði laganna sem skilaði skýrslu til mín í nóvember 2021 og ég flutti síðan Alþingi skýrslu um málið í lok janúar á þessu ári. Til að fylgja málinu eftir skipaði ég í maí starfshóp til þess að vera til ráðgjafar við mótun lagabreytingartillagna með hliðsjón af tillögum úttektarnefndarinnar og þar áttu sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands.

Frumvarpið sem nú er lagt fram byggist á tillögum úttektarnefndarinnar og rýni starfshópsins á þeim. Breytingarnar sem hér eru lagðar til snúa að meginstefnu að fjármálaeftirlitsnefnd. Í gildandi lögum er kveðið á um að fjármálaeftirlitsnefnd taki allar ákvarðanir sem faldar eru fjármálaeftirlitinu í lögum. Þá er kveðið á um að nefndin geti framselt vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabanki Íslands taki að meginstefnu þær ákvarðanir sem faldar eru fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Hins vegar er einnig lagt til að fjármálaeftirlitsnefnd fjalli um og taki ákvarðanir í nokkrum tegundum veigameiri mála. Þá er kveðið á um að gefa skuli fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru tilteknar ákvarðanir. Slíkt fyrirkomulag hefur þann tilgang að gera nefndina betur í stakk búna til að fjalla um og fylgjast með starfsemi á fjármálamarkaði. Þessari breytingu er ætlað að skýra valdsvið fjármálaeftirlitsnefndar við afmörkun þeirra ákvarðana sem fjármálaeftirlitsnefnd er ætlað að taka og þeirra ákvarðana sem kynna skal fyrir nefndinni. Var m.a. höfð hliðsjón af starfssviði stjórna norrænu fjármálaeftirlitanna.

Ekki er gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitsnefnd geti framselt vald til ákvarðanatöku til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits og er með því brugðist við þeirri gagnrýni sem var sett fram í skýrslu úttektarnefndarinnar um að slíkt framsal valds og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin var til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunar skapi flækjustig við ákvarðanatöku. Með því að afmarka nánar í lögum hvaða ákvarðanir nefndin skuli taka er stuðlað að auknum skýrleika í stjórnsýslu á sviði fjármálaeftirlits og er breytingunum ætlað að gera starf nefndarinnar markvissara og efla þar með eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.

Þá er lagt til að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar en hann er formaður hinna tveggja fastanefnda Seðlabankans sem áður voru nefndar, peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar. Er tillagan í samræmi við það sem ég lagði til í frumvarpinu sem varð að lögum um Seðlabanka Íslands 2019, en úttektarnefndin benti á að það væri rökréttara þegar horft væri til hefðbundinna sjónarmiða um að ábyrgð fylgi ákvörðunum að seðlabankastjóri gegndi formennsku í nefndinni. Til upprifjunar má nefna það hér að þingið gerði þessa breytingu í þinglegri meðferð en þetta var þá einnig tekið til skoðunar af þessari úttektarnefnd.

Þá er í frumvarpinu lagt til það nýmæli að fjármálaeftirlitsnefnd setji stefni um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og beitingu þvingunarúrræða og veiti umsögn um stefnumörkun um áherslur í fjármálaeftirliti. Gert er ráð fyrir því að varaseðlabankastjóri á fagsviði fjármálaeftirlits undirbúi tillögur um áherslur í fjármálaeftirliti og hafi umsjón með innleiðingu þeirra.

Jafnframt er lagt til að ákvæði laganna um skipunartíma utanaðkomandi sérfræðinga í fjármálaeftirlitsnefnd verði breytt þannig að skipunartími þessara nefndarmanna verði mislangur frá, þremur árum til fimm ára. Markmið tillögunnar er að tryggja að utanaðkomandi sérfræðingar í nefndinni láti ekki af störfum á sama tíma og stuðla þannig að samfellu þegar kemur að þekkingu utanaðkomandi nefndarmanna og starfsemi nefndarinnar og að nýir nefndarmenn fái möguleika á að starfa með sérfræðingum sem hafa setið í nefndinni í einhvern tíma.

Loks er lagt til að kveðið verði á um að fjármálaeftirlitsnefnd komi saman eins oft og þurfa þykir, að jafnaði ekki sjaldnar en sex sinnum á ári, en ekki tíu sinnum eins og nú er og tengist það þá þeim tillögum sem þarna eru um breytta verkaskiptingu. Rétt er að undirstrika að í þessu frumvarpi er fyrst og fremst verið að skera úr um í álitamálum er varða fjármálaeftirlitsnefnd sem af úttektarnefndinni voru talin fela í sér réttaróvissu. Með þessum breytingum yrði dregið úr þeirri réttaróvissu. Ekki er tekið á álitaefnum er varða hlutverk annarra fastanefnda bankans og verkaskiptingu þeirra á milli eins og t.d. peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar.

Í því sambandi er rétt að hafa í huga að nú standa yfir tvær aðrar úttektir sem varða starfsemi Seðlabanka Íslands. Annars vegar er um að ræða úttekt á árangri Seðlabanka Íslands skv. 36. gr. laga um Seðlabankann og bráðabirgðaákvæði nr. VII sem kveður á um að á fimm ára fresti skuli ráðherra fela þremur óháðum sérfræðingum á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits að gera úttekt um hvernig Seðlabankanum hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Jafnframt skal litið til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs. Vinna þessarar nefndar er komin vel á veg og gert er ráð fyrir að skýrsla hennar liggi fyrir á næsta ári, væntanlega snemma á næsta ári.

Hins vegar stendur nú yfir umfangsmikil úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu þar sem lagt er mat á viðnámsþrótt þess en gert er ráð fyrir að það mat liggi fyrir á fyrri hluta árs 2023. Báðar þessar úttektir geta varpað frekara ljósi á það hvort þörf er á einhverjum frekari lagabreytingum á lögum um Seðlabanka Íslands. Hins vegar tel ég mikilvægt, til að fylgja því verklagi sem lagt var upp með þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma, að ljúka þeim breytingum sem hér eru lagðar til til að bregðast við þeim ábendingum sem komu fram í skýrslu úttektarnefndarinnar varðandi valdsvið fjármálaeftirlitsnefndar og skýrleika í stjórnsýslu á sviði fjármálaeftirlits og rökin, eins og ég hef áður farið yfir, fyrst og fremst að skýra verkaskiptingu og draga úr réttaróvissu sem varðar þessa þætti.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að málið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til frekari umfjöllunar að lokinni 1. umr.