154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Ég skoðaði nefndarálit 2. minni hluta sem er að mjög mörgu leyti áhugavert og ég tek undir margt sem þar kemur fram. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Í kaflanum Víðara samhengi kemur fram, með leyfi forseta:

„Þekkingarsamfélag sprettur upp og spírar út frá þörfum og ástríðu fólks frekar en að mótast af valdboði að ofan.“

Svo kemur líka aðeins seinna, á blaðsíðu 3, með leyfi forseta:

„Þekkingarsköpun innan háskóla á að vera á forsendum þekkingar, þarfa og ástríðu nemenda en ekki á forsendum atvinnulífsins.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Núna er verið að tala t.d. um meginmarkmið — þar segir, með leyfi forseta: „Stjórnvöld stuðli að hagnýtingu nýrra lausna til að takast á við samfélagslegar áskoranir …“ Og svo með rannsóknarháskóla og svoleiðis, en ég get ekki séð að þekkingarsamfélag geti byggst eingöngu á ástríðu fólks. Ég trúi því að stjórnvöld geti reynt að efla þekkingarsamfélagið, með fjármagni t.d., eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Það er að synd að það skuli hafa verið minnkuð framlög til grunnrannsókna og til nýsköpunarfyrirtækja.

Er ekki mikilvægt að stjórnvöld efli þekkingarsamfélag með fjármagni, með því að einfalda regluverkið með átaki í STEM-kennsluaðferðum o.s.frv., sem hefur ekkert með ástríðu fólks að gera. Ég get alveg sagt það fyrir mig og ég þekki bara marga nemendur Háskóla Íslands sem fóru ekki í viðskiptafræði eða lögfræði út af ástríðu. Það er margt í lífinu sem við þurfum að gera án ástríðu. Er ekki líka mikilvægt (Forseti hringir.) að við horfum til þarfa atvinnulífsins og að við eflum nýsköpunarfyrirtæki (Forseti hringir.) og atvinnulífið með þekkingarsamfélagi?