154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[17:14]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Orð eru ódýr á sama tíma og ríkisstjórn Íslands leggur fram stefnu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknarhlutverk háskóla verði aukið og metnaður og hugvit nemenda virkjað í því skyni að efla þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir vísindafólk.“

Þá ætlar sama ríkisstjórn að skera niður nákvæmlega þetta, skera niður til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs um milljarð króna, skera niður sem nemur ársverkum 70 doktorsnema, sem er ígildi fjöldauppsagna. Sú afsökun að hér sé bara verið að fella niður tímabundið Covid-framlag verður ósköp hjákátleg þegar horft er til þess að framlög úr sjóðnum verða líka umtalsvert lægri á næsta ári en þau voru árið 2019 að raunvirði og þau verða líka skert árið 2005 og 2026. Á sama tíma og hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi tala um ný tækifæri fyrir vísindafólk þá á einmitt að hrifsa tækifærin af vísindafólki. Það er það sem raunverulega stendur til samkvæmt fjárlögum næsta árs. Það er skömm að þessu. Hér kristallast sýndarmennskupólitík ríkisstjórnarinnar og flokkanna sem stjórna landinu; að segja eitt en gera annað. Alltaf sama sagan. Við þurfum breytta stefnu og breytta forgangsröðun og nýja ríkisstjórn.