132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fjármálafræðsla í skólum.

322. mál
[12:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Í hvaða bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla fer fram kennsla í meðferð fjármuna?“

Margvíslegar breytingar hafa orðið á fjármálaumhverfi á Íslandi á undanförnum árum og hefur hv. þingmaður m.a. komið inn á það. Það er sífellt flóknara að vera þátttakandi og neytandi í okkar nútímasamfélagi. Íslensk börn og unglingar hafa almennt meira fé á milli handanna, sem í sjálfu sér má segja að sé fagnaðarefni ef vel er með farið, og eru í auknum mæli augljós markhópur sem kaupendur vöru og þjónustu. Af þessum sökum er fræðsla um fjármál í grunn- og framhaldsskólum afar mikilvæg og brýn.

Aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla setja skólum almenn markmið um nám og kennslu í einstökum námsgreinum. Aðallega er fjallað um fjármál og neytendamál í lífsleikni, heimilisfræði og samfélagsfræði í grunnskóla og í lífsleikni og í samfélagsgreinum í framhaldsskóla. Námsgreinin lífsleikni hefur verið skyldunámsgrein á grunn- og framhaldsskólastigi frá því að núgildandi aðalnámskrár voru gefnar út árið 1999. Markmið hennar, lífsleikninnar, er að styrkja einstaklinginn í hvívetna og búa hann undir að takast á við lífið. Í lífsleikni er sérstaklega fjallað um neytendamál og fjármál og í námskrám eru sett fram markmið þar að lútandi. Á þetta bæði við um grunn- og framhaldsskólana. Samkvæmt aðalnámskrám fer kennsla um fjármál og neytendamál aðallega fram á unglingastiginu í grunnskólanum, þ.e. í 8., 9. og 10. bekk og svo í framhaldsskóla. Markmið í aðalnámskrám eru öll nemendamiðuð. Lokamarkmið í lífsleikni við lok grunnskóla eru m.a. að nemendur — það er kannski rétt að fara aðeins yfir það — þekki og hafi innsýn í það að vera neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi og það felur í sér grundvallarþekkingu um réttindi neytenda, fjármál einstaklinga og samfélags, auglýsingar og áhrif þeirra, neyslu og umhverfi, auðlindir jarðar, híbýli, fatnað o.fl. og m.a. verð og gæði matvæla. Hliðstæð markmið má síðan finna í heimilisfræðum og samfélagsgreinum grunnskóla.

Sérstaklega er fjallað um fjármál í lífsleikni sem kjarnagrein í framhaldsskóla. Þar er stefnt að því að nemandi verði meðvitaður um ábyrgð sína sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi eins og þar segir. Hagfræði er kjörsvið á bóknámsbrautum framhaldsskóla. Þar geta nemendur m.a. valið hagfræðikjörsvið. Auk þess geta nemendur á hinum ýmsu brautum framhaldsskólans numið fjármálagreinar í frjálsu vali. Loks má benda á að rekstrargreinar eru hluti af námi fyrir iðnsveina til iðnmeistaraprófs en þær snúa reyndar meira að fjármálum fyrirtækja en einstaklinganna sjálfra.

Rétt er að vekja athygli á því að nú stendur yfir endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og í drögum starfshóps um breytingar á námskrá í lífsleikni er að finna tillögur um að styrkja enn frekar markmið um fjármála- og neytendafræðslu. Í þessum tillögum er m.a. stuðst við norræna skýrslu frá árinu 2000 um neytendafræðslu á Norðurlöndunum þar sem m.a. er lögð áhersla á mikilvægi fjármálafræðslu fyrir ungt fólk í dag og settar fram tillögur um markmið um fjármál einstaklinga, réttindi þeirra og skyldur, auglýsingar og áhrifavalda, neytendur, umhverfismál, siðferði o.fl.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að í drögum starfshóps um breytingar á námskrám í samfélagsgreinum framhaldsskóla eru viðskiptafræði og hagfræði styrktar sem kjörsviðsgreinar og settar fram tillögur um nýja áfanga, m.a. um fjármál einstaklinga og helstu hugtök á sviði fjármála almennt.

Aðalnámskrár leggja meginlínur um nám og kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir að einstakir skólar útfæri síðan markmið aðalnámskrár í skólanámskrám sínum og velji námsefni í samræmi við áherslur í kennslunni.

Í öðru lagi er spurt: „Hvaða námsefni er kennt og hver eru meginatriði fjármálafræðslunnar?“

Rétt er að undirstrika það að ráðuneytið ákvarðar ekki kennsluefni í námskránum. Einstakir grunnskólar og framhaldsskólar velja það efni og þær kennsluaðferðir hverju sinni sem henta best til að stefna að settum markmiðum og er það í samræmi við þá áherslu að efla svigrúm og sjálfstæði skóla.

Námsgagnastofnun sér um útgáfu námsgagna fyrir grunnskóla samkvæmt lögum um grunnskóla. Samkvæmt upplýsingum frá henni, þ.e. Námsgagnastofnun, hafa grunnskólar m.a. notað námsefnið Auraráð sem stofnunin gaf út árið 2005. Það er vinnuhefti um fjármál og þar má finna umfjöllun um helstu atriði í sambandi við fjármál einstaklinga og má þar nefna skatta, greiðslukort, lántökur, vanskil, lífeyrissjóði o.fl. Fjallað er stuttlega um hvert atriði og því fylgt eftir með verkefnum. Í mörgum verkefnum skólanna er gert ráð fyrir upplýsingaleit og notkun reiknivéla á netinu og stuttar kennsluleiðbeiningar eru á vef Námsgagnastofnunar eða nams.is sem er ágætisvefur og gott að fara inn á.

Ýmsir aðilar svo sem bankar og fjármálastofnanir hafa einnig gefið út námsefni um fjármál fyrir nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum til þess að halda einstaklingunum sem mest upplýstum, láta þá vera meðvitaða um þá miklu ábyrgð sem felst í því að meðhöndla peninga.