135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:36]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði á sínum tíma, reyndar fyrir réttu ári eða svo, — og var mjög harkalega gagnrýnt úr röðum Samfylkingarinnar og m.a. skrifaðar greinar í Morgunblaðið þar sem varað var við því að Samfylkingin væri í Kaffibandalaginu og lagst gegn því að Samfylkingin efndi það ef til ríkisstjórnarsamstarfs kæmi — hefur nú verið sett inn í stjórnarfrumvarp. Þá er ég bara að vísa til þess sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson setti fram um þessi mál.

Í þessu stjórnarfrumvarpi er reyndar gengið lengra en hv. formaður Frjálslynda flokksins lagði þá til. Ég er algjörlega sammála þessu frumvarpi og var þá og er enn algjörlega sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni vegna þess að ég lít á þessa hluti sem heilbrigðismál, ekki sem þjóðernismál tengd andúð á útlendingum. Það er bara heilbrigð skynsemi að tryggja að hver sá sem hingað kemur og vill vera fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sér til góða og koma í veg fyrir að hann geti skaðað heilsu annarra. Þetta hefur verið í lögum á Íslandi um áratugaskeið, þetta er skynsamlegt og er á engan hátt beint gegn þjóðerni þess sem í hlut á. Ég segi eins og er, virðulegi forseti, ég fagna því að Samfylkingin hefur fallist á þessi sjónarmið. Það þýðir einfaldlega að sá ágreiningur sem var á milli flokkanna, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, er úr sögunni og þær hindranir sem reynt var að setja upp í aðdraganda síðustu alþingiskosninga um mögulegt stjórnarsamstarf eru þá líka úr sögunni. Ég hlýt að fagna því.