135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:47]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aftur er málflutningur hv. þingmanns afvegaleiðandi. Staðreyndin er sú að flutningsmenn þessa frumvarps eru ekki að leggja til að innleitt verði bann við áfengisauglýsingum í landinu. Við erum að vísa til þess að samkvæmt núgildandi lögum er slíkt bann við lýði og ég endurtek fyrstu setninguna í 20. gr. áfengislaganna þar sem segir, með leyfi forseta: „Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar.“

Spurningin snýst ekki um að við séum að innleiða einhverja nýjung hvað þetta snertir, að við séum að innleiða bann við áfengisauglýsingum. Hér er við lýði bann við áfengisauglýsingum en það er farið á bak við það bann og við erum að reyna að stoppa upp í það gat og vísum til fordæmis frá Noregi hvað það snertir. Síðan getum við tekið þá umræðu hvort heppilegt sé, eins og hv. þm. telur vera, að opna fyrir auglýsingar á áfengi. Við skulum þá ræða það. En sú breyting sem gerð yrði þá á lögunum væri ekki hin sem við erum að leggja til nú vegna þess að við erum með þessu lagafrumvarpi einfaldlega að reyna að sjá til þess að markmið núgildandi laga nái fram að ganga.