135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

almenn hegningarlög.

192. mál
[19:16]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða fari fram og vil koma því að að varðandi aðgerðaráætlun gegn mansali leit ég á það sem forgangsverkefni hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að stuðla að þeim lagabreytingum og staðfestingu á þeim alþjóðasamningum sem hafa verið kynntir á Alþingi og lagafrumvarp um breytingar hefur verið kynnt.

Þegar þeim markmiðum var náð að félagsmálaráðuneytið kom að málinu fluttist forræðið yfir til þess ráðuneytis og hafist var handa við aðgerðaráætlanir. Þetta taldi ég alltaf hina réttu málsmeðferð og ég fagna því að niðurstaðan er sú og að hv. þingmaður er sáttur við hana. Ég taldi að það væri tímasóun fyrir dómsmálaráðuneytið að velta fyrir sér aðgerðaráætlunum á meðan ekki væri búið að koma lagaumgjörðinni í það horf sem við erum að vinna við núna í þinginu.

Varðandi það mál sem hv. þingmaður flytur nú enn og aftur, þá náði það ekki fram að ganga á þinginu þegar fjallað var um breytingar á kaflanum um kynferðisbrot í almennum hegningarlögum. Málið er komið hér aftur og mun náttúrlega fá þá meðferð sem þingið ákveður.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að í Finnlandi var ákveðið afbrigði af þessari tillögu samþykkt og í Noregi eru menn að fjalla um þetta. Einnig er verið að fjalla um málið í Bretlandi og hinn 21. janúar síðastliðinn birtist á vefsíðu BBC frásögn af því hvernig sú fréttastofa lítur á framvindu mála í Svíþjóð eftir að þessi lög tóku gildi þar árið 1999. Þar segir að samkvæmt opinberum heimildum sænskum sé talið að vændiskonum þar hafi fækkað úr 2.500 í 1.500. Síðan hefur fréttastofan eftir mannfræðingnum Petru Östergren, sem hefur kannað þessi mál í tíu ár í Svíþjóð, að það viti enginn í raun og veru hvaða áhrif þetta hafi haft og það viti enginn hvort vændiskonum hafi fækkað í Svíþjóð. Samkvæmt rannsóknum hennar er svo komið fyrir vændiskonum að þeim þykir þær sæta lakari kjörum að því er þetta varðar en áður því að nú verði þær að starfa með leynd sem sé hættulegra fyrir þær. Kasja Wahlberg, sem er rannsóknarlögreglumaður á sviði mansalsmála í Svíþjóð, segir að tölur sýni að fjöldi þeirra kvenna sem koma til Svíþjóðar vegna mansals hafi meira en tvöfaldast. Síðan er því lýst hvernig lögreglan standi að þessu. Komið er fyrir myndavélum og myndir teknar af karlmönnum sem eru á slóðum þessara kvenna og eftir að þeir hafa verið myndaðir er þeim sent bréf og þeim skipað að borga. Í Malmö þurfa menn að borga 35 þús. sænskar krónur í sekt fyrir þetta og hafi þeir gert eitthvað meira glæpsamlegt getur það einnig leitt til fangelsisvistar. Sagt er að um 500 hafi karlmenn hafi verið sektaðir eða sakaðir um að hafa brotið þessi lög.

Síðan hefur BBC einnig eftir fyrrverandi vændiskonu í Svíþjóð, Isabellu Lund, sem hafi komið fram opinberlega og tekið upp baráttu gegn þessum lögum, að hún telji að lögin hafi stórskaðað vændiskonur, þau hafi leitt til þess að þær búi við mun verri aðstæður og að komið sé fram við þær af miklu meira harðræði af þeim sem haldi þessari starfsemi úti og að mansal blómstri meira en nokkru sinni fyrr í Svíþjóð. Þetta segir BBC um árangurinn af þessari löggjöf.

Þessi frétt birtist á vefsíðu BBC og má skoða hana þar. Þeir birta þetta þegar þeir fjalla um það að menn séu að velta því fyrir sér í Bretlandi að fara inn á þessar brautir. Og eins og skynja má af þessu er fréttamaðurinn, sem heitir Thomas Buch-Andersen og er í Malmö, greinilega ekki þeirrar skoðunar að þarna sé verið að gera eitthvað sem dragi úr þessari starfsemi heldur færi hana neðan jarðar og skapi aukna erfiðleika og hættu.

Ég hef margsinnis sagt í umræðum hér þegar við erum að fjalla um þessi mál að við þurfum að sníða okkar löggjöf að aðstæðum okkar. Við glímum ekki við mansalsmál á þann veg sem hér er lýst og Svíar glíma við eða Finnar eða Norðmenn. Við þurfum að taka á þessum málum með okkar umgjörð í huga og haga löggjöfinni í samræmi við það. Ég treysti því að Alþingi fjalli um þetta frumvarp eins og það hefur áður gert og komist að sinni niðurstöðu.