136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skipun sérstaks saksóknara og álag á dómstóla.

[10:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir. Það fyrra tengist afgreiðslu þingsins í gær á frumvarpi um embætti sérstaks saksóknara sem var afgreitt í góðri sátt og er það vel og er það mál að komast í farveg. Hluti af því samkomulagi er að í nefndaráliti allsherjarnefndar er vikið að því að haft verði samráð um skipan hins sérstaka saksóknara og þarf ekki að fara um það mörgum orðum hversu mikilvægt er að þar takist vel til og að sú skipan verði hafin yfir deilur og um hana samstaða. Ég vil því í fyrra lagi spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig hann hyggist standa að því að koma því máli í höfn, þ.e. hvenær og hvernig verður staðið að skipuninni og hvernig samráðinu við allsherjarnefnd eða þingið og þingflokka verði háttað.

Hið seinna snýr að dómstólum landsins. Nú er það svo að þar er fyrir mikið álag og biðlistar heldur að lengjast en styttast, ef ég veit rétt, bæði í héraðsdómum og Hæstarétti. Ég hef orðið var við það meðal dómenda að menn hafa af því miklar áhyggjur að þar stefni að líkindum í stóraukið álag, af ástæðum sem við þurfum ekki að fjölyrða um og allir geta getið sér til um hverjar eru. Dómstólar landsins búast því miður við því að málum muni stórfjölga, ekki síst sem tengjast efnahagsbrotum eða efnahagságreiningi eða hruni sem menn kjósi að skjóta til dómstóla. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hefur ráðuneytið gert einhver drög að því hvernig komið verði til móts við dómstólana og tryggt að þeir ráði við þau verkefni sem nú má ætla að þeir fái í sínar hendur til viðbótar því mikla álagi sem þar er fyrir? Er ætlunin að gera þeim kleift að efla starfsemi sína, bæta við sig mannskap eða ráða á annan hátt við verkefnin sem þar má búast við að verði ærin á komandi missirum?